XXXVII Andleg fátækt
37.0 SÓUN Á KRÖFTUM.
37.1 YFIRBORÐSMENNSKA.
37.2 DULVITAÐ DRAMB.
37.3 ÓÁREIÐANLEIKI.
37.4 ÁBYRGÐARLEYSI.
37.5 VEIGRUNARAÐFERÐIR.
37.6 SIÐFERÐI.
37.0 SÓUN Á KRÖFTUM.
Afleiðingar innra ósættis hafa lítt verið rannsakaðar, enda um nær ótakmarkað efni að ræða. Ræða mætti þær út frá ytri afleiðingum, svo sem þunglyndi, drykkjusýki, flogaveiki eða geðklofasýki (schizophrenia) og vona að með því sé varpað betra ljósi á skaðvaldinn. Hér verður efnið rætt út frá víðara sjónarhóli og spurt: Hvaða áhrif hefur innra ósætti á andlega krafta okkar, heilindi og hamingju? Kjarni málsins er sá, að mikilvægi ytri afleiðinga verður ekki metið, án þess að skilja hinn mannlega grundvöll þeirra. Tilhneiging nútíma sálvísinda til að setja fram einfaldar og hentugar skilgreiningar til að skýra ýmis ytri einkenni er skiljanleg í ljósi hinnar miklu þarfar geðlækna fyrir virkar aðferðir til að kljást við vandann. Slíkt er þó ekki gerlegt og alls ekki vísindalegt. Slíku verklagi má líkja við það hátterni að byggja efstu hæð húss áður en grunnurinn er lagður.
Innra ósætti veldur sóun á kröftum okkar, bæði hið innra ósætti sem slíkt og vafasamar aðferðir okkar til að losna við það. Ef við erum í grundvallaratriðum skipt hið innra með okkur, getum við aldrei beitt orku okkar heilshugar við neitt. Við viljum þá elta ólar við tvö eða fleiri ósættanleg markmið. Við dreifum kröftum okkar og spillum fyrir allri viðleitni. Slíkt mátti sjá í Pétri Gaut eftir Ibsen, en þeir sem telja sig vera eigin sjálfsmynd, sem þeir dást að, halda jafnframt gjarnan, að þeir geti skarað fram úr í öllu. Kona ætlar að vera fyrirmyndar móðir, fullkomin húsmóðir og gestgjafi, klæðast glæsilega, vera áberandi í félagslífi eða stjórnmálum, vera góð eiginkona, halda fram hjá og gera eitthvað skapandi fyrir sjálfa sig. Ekki þarf að taka fram, að þetta er ókleift. Henni hlýtur að mistakast að einhverju leyti í öllum þessum þáttum og orku hennar er kastað á glæ, hversu hæfileikarík sem hún annars er.
Almennt er þó mikilvægara, hvernig viðleitni til að gera eitthvað ákveðið er kæfð í upphafi, þar sem ósættanlegar áhugahvatir standa hvorri annarri í vegi. Einhver vill vera góður vinur, en er jafnframt svo ráðríkur og krefjandi, að geta hans í þessa átt verður aldrei að veruleika. Annar vill skrifa bók, en fær höfuðverk eða verður mjög þreyttur í hvert skipti sem hann getur ekki sett það fram, sem hann vill segja. Í þetta skiptið er það sjálfsmyndin sem veldur: þar sem hann er andlegur snillingur, af hverju ættu þá ekki snilldarhugmyndir að koma úr penna hans eins og kanínur úr hatti töframanns. Þegar þær gera það ekki, snýst hann reiður gegn sjálfum sér. Einhver annar hefur hugmynd sem er mikils virði og hann vill setja fram á fundi. En hann langar til að setja hana fram á áhrifamikinn hátt og setja aðra í skuggann. Hann vill einnig geðjast öðrum og vera vinsæll, en óttast á sama tíma að gera sig hlægilegan vegna eigin sjálfsfyrirlitningar, sem hann frávarpar. Útkoman verður sú, að hann getur ekkert hugsað og sú hugmynd sem hann hefði getað skapað, ber aldrei ávöxt. Einhver enn annar gæti verið góður skipuleggjandi, en hann vekur fjandskap hjá þeim sem hann skiptir við með illkvittni sinni. Ekki þarf að setja fram fleiri dæmi, því við finnum öll fullt af þeim, ef við skoðum okkur sjálf og þá sem eru nálægt okkur.
Halda mætti að um undantekningar frá þessu stefnuleysi væri að ræða, þegar fólk er haldið ákveðinni áráttu eða virðist keppa af heilindum að ákveðnu markmiði. T.d. fórna sumir öllu, jafnvel virðingu og sæmd, fyrir metnað sinn. Sumar konur virðast ekkert vilja fá annað í lífinu en ást. Foreldrar geta fórnað sér fyrir börn sín. Þetta gæti bent til heilinda. En eins og við höfum áður séð af fyrri þáttum, þá er fólk þetta oftast í raun að elta eigin tálsýn, sem því virðist vera lausn á eigin innra ósætti og árekstrum. Hin sýnilega einlægni er örvænting frekar en heilindi.
Það er ekki aðeins að árátta í gagnstæðar áttir eða ósamþýðanlegar þarfir eyði orku manna. Aðrir þættir í varnarháttum okkar gera það einnig. Það er útilokun eða myrkvun stórra sviða persónuleikans, t.d. með bælingu, en norðanmaðurinn bælir sunnanvinda og öfugt, svo dæmi sé tekið. Þessi bældu svið eru þó nægilega virk til að trufla án þess að kleift sé að hagnýta sér þau á uppbyggilegan hátt. Þarna er því um að ræða orkutap sem annars mætti nota til að láta til sín taka, til samvinnu eða til að stofna til góðra mannlegra tengsla.
Nefna mætti annan þátt, sjálfsfirringu, sem rænir hvern og einn innra hreyfiafli ef svo má segja. Viðkomandi gæti verið góður starfsmaður, hann sýnir mikla viðleitni, þegar hann er undir ytra þrýstingi, en fellur saman, þegar hann verður algerlega að byggja á sjálfum sér og nýta eigin úrræði. Þetta merkir ekki aðeins að hann geti ekkert uppbyggilegt og ánægjulegt aðhafst í frítíma sínum. Þetta þýðir hvorki meira né minna, að öll sköpunarorka hans fer í súginn.
Yfirleitt leiða margir þættir saman til að stór svæði margbreytilegra hamla skapast. Til þess að skilja og væntanlega fjarlægja hverja hömlu fyrir sig, þurfum við að nálgast hana aftur og aftur og skoða hana frá öllum þeim sjónarhólum sem við höfum áður rætt.
Ástæða þess, að kröftum er beint í rangar áttir, þeim er sóað eða þeir vannýttir, getur átt sér rætur að rekja til óákveðni, óvirkni eða tregðu og skal nú vikið að þessum þáttum, hverjum fyrir sig. Almenn óákveðni getur almennt verið ríkjandi allt frá smáatriðum til mikilvægra hluta. Endalausar vangaveltur geta verið uppi um hvort borða eða kaupa skuli þetta eða hitt, fara þetta eða hitt, hvaða verk skuli vinna, hvaða stöðu skuli taka, hvaða konu skuli vera með, hvort skilja skuli eða ekki eða hvort skuli lifa eða deyja. Ákvörðun sem taka þarf eða verður ekki aftur tekin, verður meiri háttar eldraun. Viðkomandi er gripinn skelfingu og verður fljótt uppgefinn.
Þótt óákveðni sé augljós öðrum, verða sumir ekki varir við hana vegna þess að þeir reyna óafvitað hvað þeir geta til að forðast ákvörðun. Þeir fresta málunum. Þeir koma sér ekki til að gera hlutina. Þeir láta tilviljanir ráða eða láta aðra taka ákvarðanir fyrir sig. Þeir varpa hulu á málin og flækja þau, þannig að erfitt er að finna grundvöll til að taka ákvarðanir. Viðkomandi er líka venjulega ekki ljóst stefnuleysið sem öllu þessu fylgir. Hin mörgu dulvituðu ráð og aðferðir til að hylja þessa allsráðandi óákveðni skýrir það hvers vegna sjaldan er óánægja með þetta ástand sem í raun er almenn óreiða.
Önnur ástæða þess að kröftum er beint í rangar áttir er almenn óvirkni. Hér er ekki átt við vanhæfni á einhverju sviði, sem getur stafað af æfingarleysi, vankunnáttu eða áhugaleysi á ákveðnu sviði. Ekki heldur ónýtt orka í venjulegum skilningi. Hér er um að ræða afleiðingu þess að viðkomandi er ófær um að nýta krafta sína vegna innri árekstra. Eins og bifreiðinni sé ekið með handhemlana á. Bifreiðin nær ekki ferð. Þetta á bókstaflega stundum við. Allt sem viðkomandi gerir tilraun til er gert miklu hægar en hæfni hans eða innbyggðir erfiðleikar í viðfangsefninu gefa tilefni til. Ekki er um það að ræða að viðkomandi sýni ekki viðleitni, þvert á móti sýnir hann sérstaklega mikla viðleitni við allt sem hann gerir. Það getur tekið hann óratíma t.d. að skrifa einfalda skýrslu eða gera einhvern annan einfaldan hlut. Auðvitað er það margbreytilegt sem truflar hann. Hann getur verið að gera uppreisn gegn því sem honum finnst vera þvingandi. Hann gæti þurft að gera hvert smáatriði alfullkomið. Hann gæti verið sjálfum sér reiður, eins og áður var nefnt dæmi um, að takast ekki fullkomlega í fyrstu tilraun. Óvirknin lýsir sér ekki aðeins í hægagangi, heldur einnig í gleymsku og vandræðabrag. Húsmóðir gerir ekki verk sitt vel, ef henni finnst það ósanngjarnt að hún svo hæfileikarík skuli þurfa sinna lítilmótlegum störfum. Óvirkni hennar mun þá venjulega ekki vera takmörkuð við þessi sérstöku störf, heldur ná til annarrar viðleitni og starfa hennar. Þetta merkir frá huglægu sjónarmiði að vinna undir streitu með þeim óhjákvæmilegu afleiðingum að verða fljótt uppgefinn eða þurfa mikinn svefn. Eins og bifreið gengur illa, ef hemlar eru á, þá tekur öll vinna undir þessum kringumstæðum sinn toll af viðkomandi.
Slík innri streita og óvirkni kemur ekki aðeins í ljós við vinnu heldur einnig í mannlegum samskiptum. Ef einhver vill vera vinsamlegur, en er ósáttur við þá hugmynd, þar sem honum finnst slíkt smeðjulegt, verður hann uppskrúfaður eða tilgerðarlegur. Ef hann langar til að biðja um eitthvað, en honum finnst sem hann ætti að skipa viðkomandi að gera það, verður hann óalúðlegur eða jafnvel ruddalegur. Ef hann vill fylgja einhverju eftir, en vill jafnframt verða við óskum og geðjast, verður hann hikandi. Ef hann vill tengsl við fólk en býst við eða óttast höfnun, verður hann feiminn. Ef hann vil eiga kynmök en vill svekkja makann, verður hann kynkaldur og svo framvegis. Þeim mun sterkari sem gagnstraumarnir eru, þeim mun meiri lífsstreita.
Sumt fólk verður vart við slíka innri streitu. Oftast verður það vart við hana, þegar aðstæður eru sérstakar og streitan eykst. Stundum verður það vart við hana sem andstæðu við þau tilvik þegar það getur slappað vel af, verið rólegt og sjálflægt. Aðrir þættir eru gerðir ábyrgir fyrir þreytunni, sem í kjölfarið fylgir, svo sem lítið þrek, of mikil vinna og svefnleysi. Allt getur þetta auðvitað skipt máli, en að miklu minna leyti en almennt er talið.
Þriðja einkenni truflunar er dáðleysi, aðgerðarleysi eða tómlæti. Sumir ásaka sig fyrir að vera latir, en þeir kunna ekki að vera latir og njóta þess ekki. Þeir geta vitandi vits haft andúð á hvers konar áreynslu og geta réttlætt það með því að segja nóg sé að hafi hugmyndir og það sé annarra að sjá um smáatriðin, þ.e. koma þeim í verk. Andúð á viðleitni eða áreynslu getur birtst sem ótti við að hún geti orðið þeim skaðleg. Þetta er skiljanlegur ótti í ljósi þeirrar staðreyndar, að þeir vita að þeir verða fljótt þreyttir. Sá ótti gæti aukist vegna ráðleggingar læknis, sem gæti litið á þreytuna sem staðreynd.
Dáðleysi er andleg lömun eða hemill á frumkvæði og athöfn. Almennt séð er um að ræða firringu frá sjálfum sér og skort á stefnumörkun. Löng reynsla af streitu og ófullnægjandi viðleitni gerir viðkomandi lystarlausan, þótt tímar skorpuvinnu komi í milli. Af einstökum þáttum í sálarlífinu eiga sjálfsmyndin og hefndarsigurinn mestan þátt í þessu. Sú staðreynd að þurfa að sýna stöðuga viðleitni er lítillækkandi sönnun þess, að viðkomandi sé ekki eigin ímynd. Sú framtíðarsýn að gera eitthvað sem eingöngu er miðlungsverk er fráhrindandi, svo að viðkomandi vill frekar aðhafast ekkert og framkvæma í staðinn á stórbrotinn hátt í eigin hugarheimi. Sú nístandi sjálfsfyrirlitning sem fylgir óhjákvæmilega sjálfsímyndinni, rænir viðkomandi fullvissu fyrir því að hann geti gert eitthvað sem sé einhvers virði og grefur eins og í kviksand allt frumkvæði og gleði í starfi. Ef viðkomandi bælir hefndarsigur og sadisma snýr hann öllu við sem lýtur að frumkvæði, eftirfylgd eða áreitni, sem aftur leiðir til meiri og minni andlegrar lömunar. Almennt dáðleysi og tómlæti hefur mikla þýðingu að því leyti, að það tekur ekki aðeins til athafna, heldur einnig tilfinninga. Sú orka sem þannig fer í súginn vegna innri átaka og árekstra er óendanlega mikil. Hér er einnig að miklu leyti við þjóðfélagsmenninguna að sakast.
37.1 YFIRBORÐSMENNSKA.
Innri árekstrar leiða ekki aðeins til sóunar krafta, heldur einnig til siðferðilegs klofnings. Þetta gildir um siðferðileg lífsgildi og allar þær tilfinningar, viðhorf og framkomu sem verða upp á teningnum í mannlegum tengslum og áhrif hafa á þroska okkar. Það sama gildir sem um orkuna, andleg skipting leiðir til sóunar, þ.e. í siðferðilegum efnum leiðir það til missis siðferðilegrar einlægni, eða með öðrum orðum veikingu siðferðilegra heilinda. Slík veiking kemur til af gagnstæðum viðhorfum og tilraunum til fela eðli andstæðnanna.
Gagnstæð siðferðileg gildi liggja í þeim gagnstæðu grundvallarviðhorfum, sem hin innri átök hafa að geyma og ítarlega hefur verið lýst í fyrri þáttum. Þrátt fyrir allar tilraunir til málamiðlunar og samræmingar eru andstæð grundvallarviðhorf í fullu gildi. Það merkir að engin þessara viðhorfa eru tekin alvarlega. Þótt í sjálfsímyndinni séu þættir, sem hafa að geyma sönn siðferðileg gildi, er hún þó sjálf uppgerð í eðli sínu. Það er jafnerfitt fyrir viðkomandi sjálfan eða óupplýstan athuganda að greina sjálfsímyndina frá hinum raunverulegu siðferðilegu gildum, eins og að greina falsaðan peningaseðil frá ósviknum. Viðkomandi heldur og það í góðri trú, að hann fylgi ósviknum siðferðisstöðlum og álasar sjálfan sig er hann fylgir þeim ekki að fullu. Hann virðist því afar samviskusamur í því að uppfylla siðferðisstaðla sína. Hann getur verið uppveðraður af hugsun og tali um markmið, gildi og siðferðisstaðla. Samt sem áður tekur hann ekki eigin raungildi alvarlega, þ.e. þau eru ekki knýjandi eða bindandi afl í lífi hans. Hann notar staðlana, þegar honum hentar og hina stundina lítur hann fram hjá þeim. Sá sem blindar sig að hluta til eða aðskilur í huga sér eigin ósamþýðanleg viðhorf, tekur ekki eigin raungildi alvarlega. Ef þau væru ekta, væri ekki kleift fyrir hann að varpa þeim svo léttilega fyrir róða, t.d. þegar sá sem krefst þess að menn fórni sér fyrir málstað fellur við fyrsta tækifæri fyrir þeirri freistingu að svíkja hann.
Almennt eru einkenni þess að dregið er úr siðferðilegum heilindum þau, að einlægni minnkar og sjálflægni eða sjálfhverfa eykst. Í ritum Zen Búddista er einlægni jafnað við heilindi, þ.e. enginn sem er skiptur hið innra getur orðið einlægur. Hjá D.T. Suzuki segir svo á einum stað: Munkur: Mér skilst að þegar ljón ræðst að andstæðingi, hvort sem það er héri eða fíll, noti það afl sitt til hins ýtrasta. Segðu mér hvað er þetta afl? Meistarinn: Hinn einlægi hugur (bókstaflega, afl blekkingarleysis). Einlægni, þ.e. blekkingarleysi, þýðir "að leggja sig allan fram" tæknilega þekkt sem "heildarvirkni", þar sem ekkert er til sparað, ekkert er látið í ljós í dulargervi, ekkert fer til spillis. Þegar einhver lifir þannig, er hann sagður vera gullhært ljón; hann er tákn manndóms, einlægni, heilinda; hann er guðdómlega mennskur. (D.T. Suzuki: Zen Buddhism and Its Influence on Japanese Culture).
Eigingirni felur í sér, að aðrir eiga að þjóna eigin þörfum og er því siðferðilegt vandamál. Í stað þess að aðrir séu virtir sem mannlegar verur í eigin rétti, er aðeins litið á þá sem tæki til að ná ákveðnu markmiði. Það verður að friðmælast við þá og geðjast þeim til að draga úr eigin kvíða. Það verður að vekja aðdáun eða hrifningu hjá þeim til að lyfta eigin sjálfsáliti. Það verður að ásaka þá af því að ekki er tekin ábyrgð á sjálfum sér. Það verður að sigra þá vegna eigin þarfar fyrir sigur og hefnd o.s. frv.
Slík yfirborðsmennska lýsir sér á margan hátt eftir því hver á í hlut. Henni hefur verið lýst að nokkru í fyrri þáttum en verður nú gerð grein fyrir henni með öðrum hætti. Lýsingin er langt frá því að vera tæmandi. Dulvituð uppgerð og sýndarmennska er alltaf með í spilinu:
Ásýnd ástar. Það er undrunarvert hve dylja má margs konar tilfinningar og viðleitni með ástarhugtakinu eða því sem huglægt er upplifað sem ást. Hér koma til festingar og væntingar af hálfu þess sem finnur sig of veikan og tóman til að lifa sjálfur eigin lífi. Með ágengari hætti dylur ástin löngun til að hagnýta eða öðlast í gegn um annan metnaðarmarkmið, virðingu eða völd. Um getur verið að ræða þörf til að ráða yfir einhverjum og sigra hann eða sameinast honum og lifa í gegnum hann, e.t.v. með hefndarsigri. Hér getur verið á ferðinni þörf fyrir að vera dáður eða með öðrum hætti að fá staðfestingu þess að vera eigin ímynd. Þar sem ást er sjaldan sönn ástúð í okkar þjóðfélagi, eru misnotkun og svik á næsta leyti. Við sjáum ást breytast í fyrirlitningu, hatur eða tómlæti. Sönn ást breytist ekki svo auðveldlega. Staðreyndin er sú, að tilfinningar og tilhneigingar sem framkalla gerviást liggja á yfirborðinu. Ekki þarf að ítreka, að þessi uppgerð er til staðar í sambandi foreldra og barna og milli vina eins og í kynsamböndum.
Ásýnd góðmennsku, ósíngirni og samúðar og þess hátta viðmót er skylt ásýnd ástar. Hún er einkenni þess er vill geðjast öðrum og er efld af sérstakri sjálfsímynd jafnframt sem öll ýgi er að öllu leyti bæld.
Ásýnd áhuga og þekkingar er mest áberandi hjá þeim sem eru slitnir úr tengslum við tilfinningar sínar og halda að kleift sé að ná tökum á lífinu með skynseminni einni. Þeir verða að láta líta svo út sem þeir viti allt og hafi áhuga á öllu. Þetta kemur einnig fram á lævísari hátt hjá þeim sem virðast helga sig ákveðinni köllun og án þess að verða þess varir, þegar þeir nota þennan áhuga á framfarabraut, til auðsöfnunar, virðingar eða valda.
Ásýnd heiðarleika og sanngirni er algengust hjá norðanmönnum, sérstaklega í sambandi við hefndarsigur. Þeir sjá í gegnum uppgerðarást og góðleika hjá öðrum og halda því að þeir séu sérstaklega heiðarlegir, þar sem þeir taki ekki þátt í hinni almennu hræsni er menn gera sér upp örlæti, föðurlandsást, auðmýkt eða annað í þá áttina. Í raun er hræsni þeirra aðeins af öðrum toga. Fordómaleysi þeirra getur verið blind og neikvæð andúð á venjubundnum gildum. Hæfni þeirra til að segja nei þarf ekki að vera styrkur, heldur ósk um að svekkja aðra. Hreinskilni þeirra getur verið ósk um að lítillækka aðra og gera þá hlægilega. Á bak við réttmætan sjálfsáhuga þeirra getur verið falin ósk um að hagnýta sér aðra.
Ásýnd þjáningar verður að ræða aðeins ítarlegar vegna hins mikla misskilnings sem gætir um hana. Sú skoðun er algeng, að sumir vilji þjást, vilji láta fara illa með sig, vilji hafa áhyggjur og vilji láta refsa sér. En er þetta rétt, er um raunverulegan vilja að ræða? Flestir þjást meira en þeir vita af og við verðum þessarar þjáningar sérstaklega vör þegar okkur byrjar að batna og þjáningin að linast. Mikilvægara er þó að átta sig á því að andlegir árekstrar, t.d. milli norðan- og sunnanáttar eða austan- og vestanáttar, innri átök, sem ekki hafa verið leyst upp, leiða óhjákvæmilega til þjáningar og slík þjáning er óháð persónulegum vilja okkar. Raunverulega viljum við ekki gera okkur illt, ef við brotnum niður andlega, viljinn ræður þar ekki ferðinni, heldur knýr nauðsynin okkur til þess. Ef við erum knúin til að geðjast öðrum, sveigjum af í mannlegum viðskiptum og bjóðum hina kinnina, getum við jafnvel dulvitað fyrirlitið okkur og hatað fyrir það, en um getur verið að ræða að ótti við eigin ýgi leiði til þess að farið er öfgafullt í aðra átt og við í framhaldi af því sætum misneytingu eða illri meðferð annarra.
Vilji til þjáningar hefur verið tengdur þeirri tilhneigingu margra að ýkja eða dramatísera mæðu og þjáningar. Auðvitað er það svo að sumir finna og sýna öðrum eigin þjáningu með dulin markmið í huga. Um getur verið að ræða eins konar tilmæli um athygli og fyrirgefningu. Einnig getur verið á ferðinni dulvituð leið til að hagnýta sér aðra. Á ferðinni getur verið tjáning á bældum hefndarsigri og þá notuð í því skyni að álasa og refsa öðrum. Vegna innri samsetningar og uppbyggingar er hér e.t.v. á ferðinni eina leiðin, sem viðkomandi hefur til að ná fram ákveðnum markmiðum. Stundum er þjáningin talin eiga sér falskar orsakir, eins og þegar sumir virðast þjást án góðar ástæðu, eru t.d. óhuggandi af því að þeir telja sig seka, þegar þeir í raun þjást af því að vera ekki eigin ímynd. Sumum finnst þeir týndir og tröllum gefnir, ef þeir eru skildir frá ástvininum og telja það tákn um djúpa ást, en ástæðan kann að vera sú að þeir geta ekki lifað einir. Þá eru tilfinningar falsaðar, þegar fólk telur sig þjást, en er í raun fullt af reiði. Viðkomandi heldur að hann þjáist, þegar ástvinurinn hefur ekki látið heyra í sér, en er í raun reiður yfir því að atburðirnir gerast ekki nákvæmlega eins og hann væntir eða honum finnst lítillækkun af athyglisleysi hins. Þjáning er í þessu tilviki frekar valin en að viðurkenna reiðina og tilhneigingar þær sem eru ástæður hennar. Lögð er áhersla á þjáninguna til að dylja þá tvöfeldni sem ástarsambandið hefur í sér fólgið. Í öllum þessum tilvikum er því ekki kleift að álykta, að viðkomandi vilji þjást. Kjarni málsins er sá, að dulin markmið liggja að baki þeirri ásýnd þjáningar, sem látin er í ljós.
37.2 DULVITAÐ DRAMB.
Ein afleiðing þessarar þróunar er dulvitað dramb. Verið er að eigna sér getu og hæfni sem ekki eru til staðar eða eru í minna mæli en gert er ráð fyrir og telja sig á þeim grundvelli ómeðvitað eiga rétt til að gera kröfur á aðra og sýna þeim lítilsvirðingu. Slíkt dramb er ómeðvitað, þar sem viðkomandi verður ekki var neinna krafna, sem ekki eiga rétt á sér. Munurinn liggur hér ekki í því, hvort drambið er meðvitað eða ekki, heldur milli áberandi drambs og þess sem falið er á bak við ofurhógværð og afsakandi framkomu. Mismunurinn liggur í hinni leyfilegu ýgi frekar en mikilleik drambsins sem slíks. Í öðru tilvikinu krefst viðkomandi óhikað sérstakra forréttinda, en í hinu tilvikinu er hann særður ef þær eru ekki sjálfkrafa látnar í té. Í báðum tilvikum skortir það sem kalla mætti raunhæfa hógværð, þ.e. viðurkenningu - ekki aðeins í orðum, heldur einnig með tilfinningalegri einlægni - á takmörkunum og ófullkomleika manneskjunnar almennt, sérstaklega eigin. Mörgum er ógeðfellt að hugsa og heyra um eigin takmarkanir, sérstaklega þeim sem haldnir eru dulvituðu drambi. Hann skammar sjálfan sig frekar fyrir þekkingarleysi en að játa að þekking okkar nær skammt. Hann álasar sig frekar fyrir leti og kæruleysi en að játa að allir geti ekki á öllum tímum verið jafn afkastamiklir. Öruggt merki um dulið dramb er hin augljósa þverstæða, sem felst annars vegar í sjálfsásökun og afsakandi framkomu og hins vegar í gremju vegna gagnrýni eða vanræktar annarra. Hinn ofurhógværi er líklegur til að bæla þessar tilfinningar og þarf því nána athugun við til að uppgötva þær. Í raun getur hann verið jafnmikill kröfugerðarmaður og sá sem er augljóslega drambsamur. Gagnrýni hans á aðra getur verið jafn harkaleg og vægðarlaus, þótt á yfirborðinu sýni hann aðeins vinsemd og aðdáun á öðrum. Dulið væntir hann samt sem áður sömu fullkomnunar af öðrum og af sjálfum sér, sem merkir að hann skortir sanna virðingu fyrir öðrum sem sérstæðum persónuleikum.
37.3 ÓÁREIÐANLEIKI.
Annað siðferðilegt vandamál er vanhæfni til að taka ákveðna afstöðu til manna og málefna og sá óáreiðanleiki sem því fylgir. Sumir taka ekki afstöðu í samræmi við hlutlæga kosti manna, hugmynda eða málefna, heldur á grundvelli eigin tilfinningaþarfa. Þar sem þær eru aftur á móti gagnstæðar er auðvelt að skipta um skoðun. Því er auðvelt að sannfæra eða beygja marga, múta þeim dulvitað ef svo má segja, með von um meiri ástúð, virðingu, viðurkenningu, völd eða "frelsi". Þetta gildir um öll mannleg samskipti þessara manna, hvort sem þau eru einstaklingsbundin eða í hópi. Þeir geta stundum ekki tjáð sig um tilfinningu eða skoðun á öðrum. Lauslegt slúður getur valdið skoðanaskiptum. Vonbrigði eða lítilsvirðing eða það sem er fundið sem slíkt getur verið ástæða vinslita. Smá erfiðleikar breyta áhuga í lystarleysi. Trúarviðhorf, stjórnmálaskoðanir eða jafnvel vísindaskoðanir geta breyst vegna persónulegra tengsla eða reiði. Þeir geta tekið afstöðu í einkasamræðum, en skipt um skoðun við minnsta þrýsting frá áhrifamönnum eða hópi, oft án þess að vita af hverju þeir skiptu um skoðun eða jafnvel að þeir hafi yfirhöfuð gert það.
Forðast má augljósar skoðanasveiflur með því að gera ekki upp hug sinn og hafa ekki skoðanir, með því að vera hlutlaus og halda öllum möguleikum opnum. Rökstyðja má slíka afstöðu með því að benda á hve málið sé flókið. Einnig getur viðkomandi verið ákveðinn í að vera "sanngjarn". Óneitanlega er sönn viðleitni til sanngirni mikils virði. Samviskusöm ósk um að vera heiðarlegur, réttlátur, óvilhallur og sanngjarn, gerir okkur erfiðara um vik að taka afstöðu í mörgum málum. En sanngirni getur verið hluti sjálfsímyndar og því þvingandi og tilgangurinn með því er að gera afstöðu ónauðsynlega, á sama tíma og viðkomandi getur fundið sig hafinn yfir það sem hann telur fordómafullan ágreining. Þá er gjarnan tilhneiging til að líta svo án greinarmunar eða gagnrýni að þau tvö viðhorf sem um er að ræða, séu í raun ekki svo andstæð eða að í deilu tveggja manna hafi báðir rétt. Hér er á ferðinni gervihlutlægni, sem kemur í veg fyrir að viðkomandi sjái hin raunverulegu álitaefni í hverju máli.
Í þessu efni er margt ólíkt, eftir því um hvaða manngerð er að ræða. Þeir sem fara í austurátt (fráhverfir eða innhverfir) eru heilsteyptastir að þessu leyti. Þeir hafa yfirleitt ekki tekið þátt í hinni miskunnarlausu samkeppni og þeim verður ekki svo léttilega mútað með ást eða metnaði. Einnig má segja að áhorfandaviðhorf þeirra til lífsins leyfi þeim töluverða hlutlægni er þeir meta menn og málefni. En þeir eiga oft erfitt með að taka afstöðu. Þeim getur verið svo á móti skapi að deila eða að tjá hug sinn að þeir taki enga skýra afstöðu, heldur annað hvort flækja málin eða tjá sig um hið góða og illa, gilda eða ógilda án eiginlegrar sannfæringar.
Norðanmaður (hinn ásækni eða áleitni) virðist ganga í berhögg við þessa staðhæfingu þar sem hann tekur jafnan ákveðna afstöðu til manna og málefna. Hann virðist hafa óvenjulega getu til að hafa ákveðnar skoðanir, verja þær og halda fast við þær, sérstaklega ef hann hefur tilhneigingu til stífrar sjálfsréttlætingar. En þessi ásýnd er blekkjandi. Þegar þessi maður er ákveðinn, er það oftar vegna þess að hann sé þver og stælinn en að sannar skoðanir séu á ferðinni. Þar sem skoðnir hans þjóna einnig þeim tilgangi að eyða öllum vafa innra með honum, eru þær oft kreddukenndar og öfgafullar. Ennfremur er hægt að múta honum með væntingum um frama og yfirráð. Áreiðanleiki hans takmarkast því af þörf hans fyrir virðingu og völd.
37.4 ÁBYRGÐARLEYSI.
Viðhorf til ábyrgðar geta verið ruglingsleg. Orðið sjálft hefur margar tilvísanir. Ábyrgð getur merkt samviskusemi í því að uppfylla loforð og skyldur. Sumar manngerðir rækja slíka ábyrgð í ríkum mæli. Ábyrgð á öðrum getur þýtt það að maður finni fyrir ábyrgð eigin gerða svo fremi þær hafa áhrif á aðra, en hér getur einnig verið á ferðinni dulbúin aðferð til að ráða yfir öðrum. Þegar menn telja, að þeir taki á sig ábyrgð með því að taka á sig sök, getur aðeins verið um að ræða útrás reiði vegna þess að þeir eru ekki eigin ímynd hins fullkomna og í því tilviki er ekki um neina ábyrgð að ræða.
Þegar okkur verður ljóst hvað nákvæmlega sé átt við með að taka ábyrgð á sjálfum sér, skiljum við að erfitt er og stundum nær ómögulegt að axla þá ábyrgð. Það merkir í fyrsta lagi að viðurkenna bókstaflega gagnvart sjálfum sér og öðrum að þetta og hitt hafi verið ætlun okkar, orð okkar og gerðir og að við séum reiðubúin til að taka afleiðingunum. Þetta er gagnstæðan við ósannindi og að skella skuldinni á aðra. Erfitt er að taka á sig slíka ábyrgð, þar sem við vitum stundum ekki hvað við gerum eða af hverju við gerum það og við höfum mikinn áhuga á að vita það ekki. Þess vegna reynum við að snúa okkur út úr vandanum með því að afneita, gleyma eða gera lítið úr honum eða óaðvitað koma með aðrar ástæður, telja okkur misskilda eða hafa ruglast. Þar sem við viljum útiloka okkur og leysa frá ábyrgð, teljum við að makinn, félagar eða vinir eða einhverjir aðrir séu ábyrgir fyrir erfiðleikunum. Önnur ástæða sem stuðlar oft að getuleysi til að taka afleiðingum gerða okkar eða jafnvel sjá þær, er tilhneiging að líta á sjálfan sig sem almáttugan í þeim skilningi að vænta þess að geta gert allt þegar manni þóknast og sleppa með það. Í fyrstu mætti ætla að hér væri á ferðinni vitsmunalegt getuleysi til að átta sig á orsök og afleiðingu. Þegar okkur finnst aðrir ásaka okkur, getur verið um frávarp að ræða þegar við erum ekki eigin fullkomna ímynd. Þegar við innra með okkur vitum upp á okkur sökina og frávörpum henni, reynist erfitt að sjá orsök og afleiðingar, þótt sami aðili geti litið hlutlægt á mál, þegar aðrir eiga í hlut. Hann sér göturnar verða blautar af því að það rignir og ásakar engan út af því.
Þegar við tölum um ábyrgð á sjálfum okkur meinum við til viðbótar ofangreindu, hæfni til að berjast fyrir því sem við teljum rétt og vilja til að taka afleiðingunum ef gerð okkar eða ákvörðun skyldi reynast röng. Þetta er oft erfitt þegar við erum skipt hið innra. Því fyrir hvaða innri viðhorf ættum við að berjast? Ekkert þeirra þarf að standa fyrir það sem við raunverulega viljum eða trúum á. Við getum vel barist fyrir fullkominni ímynd okkar. En þá megum við ekki hafa á röngu að standa. Ef ákvörðun eða gerð leiðir til vandræða, verður að villa um fyrir öðrum og skrifa óheppilegar afleiðingar á annarra reikning. Einfalt dæmi lýsir þessum vanda. Framkvæmdastjóri fyrirtækis sækist eftir ótakmarkaðri virðingu og völdum. Ekkert má gera eða ákveða án hans. Hann getur ekki falið öðrum ákvarðanir, jafnvel þótt þeir væru hæfari til að fjalla um sum mál vegna menntunar og reynslu. Að eigin mati veit hann allt best. Hann vill ekki að aðrir finni sig eða verði mikilvægir. Hann gæti aldrei uppfyllt eigin væntingar, þótt ekki væri nema vegna takmarkana í orku og tíma. En þessi maður vill ekki aðeins ráða. Hann hefur þörf fyrir að vera góður maður og geðþekkur. Sú gagnstæða leiðir til óákveðni og frestun mála og hann á erfitt með að skipuleggja tíma sinn. Þar sem honum finnst óþolandi þvingun í því að þurfa að standa við stefnumót og aðrar tímasettar ákvarðanir, nýtur hann þess á dulinn hátt að láta fólk bíða. Til viðbótar gerir hann margt sem litlu skiptir aðeins af því að það kitlar hégómagirnd hans. Að lokum er það eindreginn vilji hans að helga sig fjölskyldunni og fer því mikið af hans tíma í það. Af því leiðir aftur að störfin í fyrirtækinu verða að sitja á hakanum. En þar sem hann sér engan galla í sjálfum sér, skellir hann skuldinni á aðra og kringumstæður.
Nú er rétt að spyrja: Fyrir hvaða hluta persónuleikans getur þessi maður tekið á sig ábyrgð? Fyrir tilhneigingu til yfirráða eða tilhneigingu að geðjast öðrum, friðmælast og afla sér vinsælda? Hann veit ekki hversu þvingandi þessar tilhneigingar eru. Jafnvel þótt hann yrði þeirra var, gæti hann ekki haldið fast í eina tilhneigingu og varpað annarri fyrir róða. Báðar eru knýjandi nauðsyn. Ennfremur leyfir hin fullkomna sjálfsímynd hans ekki að hann sjái neitt í sjálfum sér nema ótakmarkaða kosti og getu. Þar af leiðandi getur hann ekki tekið þeim afleiðingum, sem óhjákvæmilega fylgja hinum gagnstæðu og þvingandi innri viðhorfum. Hann þyrfti þá að losa um þau, en þau sitja föst og falin fyrir honum sjálfum.
Mjög er það algengt að fólk sé frábitið því að taka á sig ábyrgð á afleiðingum gerða sinna. Margir loka augunum, jafnvel þótt gerðir þeirra séu augljósar. Ófærir um að losa sig við gagnstæðar og þvingandi tilhneigingar, ætla þeir óafvitað að takast á við vandann, enda eigin geta til þess hluti af sjálfsmyndinni. Afleiðingar geta elt aðra uppi en fyrir þeim sjálfum eru þær ekki til. Þeir verða því að víkja sér undan því að viðurkenna orsök og afleiðingu. Ef þeir aðeins opnuðu hug sinn myndu þeir læra mikilvæga lexíu. Það myndi sýna þeim og sanna að slíkur lífstíll gengur ekki upp og að þrátt fyrir alla kænsku og slóttugheit er ekki kleift að hagga þeim lögmálum sem gilda innra með okkur frekar en öðrum lögmálum. Ábyrgð vekur því ekki áhuga þeirra, þar sem þeir sjá aðeins hina neikvæðu hlið. Það sem þeir ekki sjá, en geta þó lært smátt og smátt að virða, er að með því að afneita ábyrgð á eigin gerðum, spilla þeir ákafri viðleitni sinni til sjálfstæðis. Þeir vona að þeir öðlist sjálfstæði með því að sýna þrjósku og að útiloka alla ábyrgð, í stað þess að taka raunverulega ábyrgð á sjálfum sér, á ákvörðunum sínum og gerðum, en það er ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir raunverulegu innra frelsi og sjálfstæði.
37.5 VEIGRUNARAÐFERÐIR.
Þeir sem veigra sér við að horfa framan í eigin vanda og viðurkenna stöðu sína og þá þjáningu sem innri vandi veldur, nota kænskubrögð eða aðferðir, eina eða fleiri saman, sem nú verður vikið að. Frávarp er notað að fullu. Allt frá fæðu, loftslagi, manngerð foreldra, maka eða örlaga eru talin orsök ógæfunnar. Þá getur verið uppi það viðhorf, að þar sem ekkert sé viðkomandi að kenna, sé það ósanngjarnt að ógæfa skuli henda hann. Það sé ósanngjarnt að hann skuli verða veikur, verða gamall, deyja, eða ólánsamlega kvæntur, eigi vandamálabarn eða að verk hans og vinna séu ekki nægilega viðurkennd. Þessi hugsunarháttur, sem getur verið óafvitaður er rangur, þar sem viðkomandi tekur ekki tillit til eiginn þáttar í erfiðleikunum né þeirra þátta sem hann hefur ekkert vald yfir en hafa þó áhrif á líf hans. Samt sem áður er hér á ferðinni sérstök röksemdafærsla. Um er að ræða hugsun sem einkennir einangraðan mann, þar sem allt snýst um hann sjálfan og þar sem eigingirni og sjálflægni gera það ómögulegt að hann geti séð að hann er aðeins smáhlekkur í stærri keðju. Honum finnst sjálfgefið að honum hlotnist allt hið besta við ákveðnar þjóðfélagsastæður á ákveðnum tíma, en reiðist að vera bundinn öðrum í gegnum þykkt og þunnt. Þess vegna getur hann ekki séð af hverju hann ætti að þjást vegna einhvers sem hann hefur ekki átt persónulega þátt í.
Enn önnur aðferð er tengd afneitun á orsök og afleiðingu í innri málum. Afleiðingarnar verða þá einangruð fyrirbrigði ótengd viðkomandi og erfiðleikum hans. Til dæmis sýnist honum þá þunglyndi eða árátta koma upp úr þurru. Auðvitað gæti verið um að ræða sálræna fáfræði eða athugunarleysi, en við höfum tilhneigingu til að sjá ekki tengsl sálrænna þátta. Sumir sjá t.d. ekki að ýgi, önugheit og lítilsvirðandi framkoma þeirra sé tengd deilum eða óvinsældum þeirra. Sumir sjá að þeir eiga við innri erfiðleika að stríða, en halda þó að dagleg vandamál sé eitthvað óskylt þeim. Þessi aðskilnaður innri vanda frá afleiðingum hans á eigið líf er ein meginástæða tilhneigingar til að hólfa niður eða skipta niður eigin andlegri reynslu og lifa ef svo má segja einangrað í einu huglægu herbergi í einu.
Viðnám gegn því að viðurkenna þau viðhorf og tilhneigingar, sem ég hefi rakið í þessum þáttum mínum er jafnan vel falið bæði viðkomandi sjálfum og öðrum. Þetta er óheppilegt fyrir viðkomandi því að blinda á afleiðingar og orsakir þeirra leiðir til þess að menn sjá ekki hversu þeir spilla sjálfir eigin lífi. Mikilvægt er fyrir hvern og einn að sjá afleiðingar viðhorfa sinna, því það hefur læknandi áhrif. Þá sér hann að með því að breyta innri viðhorfum er kleift að öðlast frelsi.
37.6 SIÐFERÐI.
Ef um er að ræða þá yfirborðsmennsku, hroka, eigingirni og ábyrgðarleysi, sem hér hefur verið lýst, er þá hægt að tala um nokkuð siðferði? Er siðferði æskilegt? Skapar ekki hugurinn rétt og rangt og er siðferði því einhver veruleiki? Það sem einum finnst rétt, finnst öðrum rangt. Heimspekingar hafa ekki komið sér saman um neitt algilt siðferðilegt lögmál. Er framhjáhald t.d. ekki í lagi, ef makinn kemst ekki að því? Hér er ekki verið að svara þessum spurningum, heldur fullyrt að viðhorf sem tefja þroska okkar og spilla lífi okkar og tengslum við aðra séu röng og að rétt sé að leggja þau fyrir róða. Hver og einn getur gert upp við sjálfan sig, hvort æskilegt sé að þroskast, öðlast meira frelsi og losna við andlegar þjáningar. Tökum hroka sem dæmi. Ekki skiptir máli hver er ábyrgur fyrir honum, hann er til staðar. Er hroki vandi sem rétt sé að viðurkenna og reyna að komast yfir? Eru hér aðeins á ferðinni trúarviðhorf? Við höfum lært að hroki sé galli og hógværð kostur. Við sjáum að hroki er óraunhæfur og óþarfur og hefur slæmar afleiðingar og þá byrði ber hinn hrokafulli mest sjálfur, hvað sem ábyrgð líður. Hroki kemur í veg fyrir að menn þekki sjálfan sig og þar með þroskist. Hroki leiðir til ósanngirni með þeim afleiðingum að árekstrar verða við aðra og viðkomandi verður almennt firrtur frá sjálfum sér og öðrum. Hroki veldur því andlegri afturför. Við höfum því í raun ekkert annað val en að athuga okkar gang í þessu efni.