XXI Hvað er hefndarsigur?



21.0 KRÖFUR HINS HEFNIGJARNA.
21.1 BANN VIÐ BATA.
21.2 UPPRUNI.
21.3 STOLT.
21.4 SJÁLFSFYRIRLITNING OG HATUR.
21.5 HIN INNRI LEIÐ.
21.6 SAMÚÐ MEÐ ÖÐRUM.
21.7 LEIÐIRNAR ÞRJÁR.

21.0 KRÖFUR HINS HEFNIGJARNA.

Í þessum þætti og þeim næsta verður rætt um hefnd og grimmd. Maðurinn er stundum talinn vera eina dýrategundin sem myrðir aðra innan eigin samfélags. Þannig snýst lífið gegn sjálfu sér. Að þekkja sjálfan sig merkir raunverulega, að öðlast aukna vitsmunalega og tilfinningalega innsýn. Það getur gerst smám saman og því nánari sem snerting mannsins verður við veruleikann, verður hann betur vakandi og frjálsari. Þekking nægir ekki. Karl Marx sagði einhverju sinni, að þótt ósyntur maður sem hefur sokkið í djúpt vatn, þekki til þyngdarlögmálsins, bjargi það honum ekki frá drukknun. Kínverskur málsháttur segir: Að lesa um lyf læknar engan. Eitt er víst: að sjálfsþekking dregur verulega úr fjandskap til sjálfs sín og umhverfis. Eftir því sem dregur úr óöryggi, græðgi, narcissus o.s.frv., verður þekking um veruleikann hlutlægari og maðurinn finnur meira til samkenndar.

Hinn hrokafulli og hefnigjarni samsamar sig eigin stolti. Við höfum talað um narcissus, og að hann samsami sig eigin ímynd og sömuleiðis höfum við rætt um perfektionistann, sem samsamar sig eigin andlegum og siðferðilegum stöðlum. En lífstíll getur einnig byggst á samsömun við sjálft stoltið. Við þekkjum okkar eigin hefndarþörf og því þarf tilvist hennar ekki að koma á óvart. En hvers vegna er þessi þörf jafn djúp og rík, sem raun ber vitni? Hvernig getur sigurhugmynd hertekið nokkurn svo gjörsamlega, að hann verði reiðubúinn að eyða lífi sínu til að eltast við þá hugmynd. Hér koma óefað til margir og sterkir aflgjafar. Ástæðurnar nægja naumast einar sér til að varpa ljósi á þetta mikla afl og þau heljartök sem sigurinn hefur á okkur.

Flestir, sem hafa mikla þörf fyrir hefnd og sigur, halda henni innan vissra takmarka. Við þurfum ástúð og velvilja sem við viljum ekki stefna í hættu, og við óttumst hefndarviðbrögð annarra en viljum viðhalda eigin stöðu. Þegar slíku er ekki til að dreifa eða hömlurnar verka ekki, tímabundið eða varanlega, getur hefndarþörfin heltekið persónuleikann, á þann hátt að hefnd og sigur verða það afl er fjarstýrir viðkomandi. Rétt er að reyna að lýsa persónuleika, þar sem hömlur sem þessar eru ekki að verki og hefndarsigurinn er meginaflið. Slíkt má finna víða í skáldskap, en hér er um sálfræðilega lýsingu að ræða.

Ef við lítum fyrst á mannleg samskipti slíks manns, segir sig sjálft að þörfin fyrir sigur vekur metnaðargirnd hans. Í raun þolir hann engan, sem er honum vitsmunalega fremri, hefur meira vald eða dregur á einhvern hátt yfirburði hans í efa. Hann þarf í raun að draga alla samkeppnisaðila niður og sigra þá. Jafnvel þótt hann telji sig vera að fórna sér fyrir starfsferil sinn, er markmiðið lokasigur. Þar sem hann er ekki bundinn hollustu eða tryggð, getur hann orðið fláráður og svikull, að minnsta kosti óáreiðanlegur. Árangur ræðst af hæfileikum hans og vinnusemi, sem jafnan er óþrjótandi. En þrátt fyrir allt skipulag og fyrirhyggju, öðlast hann oft ekkert, sem einhvers er virði, ekki vegna skorts á afköstum, heldur vegna þessa hve hann eyðileggur fyrir sjálfum sér.

Hefnd hans kemur í ljós í miklum reiðiköstum. Hefndarreiði getur verið svo hrikaleg, að hann kann að óttast að missa stjórn á sér og gera eitthvað, sem ekki verður bætt, t.d. undir áhrifum áfengis. Hann kann yfirleitt að vera stilltur og varkár í framkomu, en þörf fyrir hefnd getur orðið þessari framkomu yfirsterkari, og í hefndarreiði getur hann spillt lífi sínu, öryggi, vinnu og þjóðfélagsstöðu.

Mikilvægari en reiðiköst, sem upp koma stöku sinnum, verður þó að telja hið stöðuga hefndarviðhorf hans gagnvart fólki. Það viðhorf heldur honum í heljargreipum. Hann er sannfærður um illkvittni og sviksemi annarra og að vinsamlegt viðmót sé uppgerð og hræsni, og að skynsamlegt sé að vantreysta öllum þeim sem ekki hafi sannað heiðarleika sinn. Jafnvel sönnunin getur af minnsta tilefni gefið tilefni til grunsemda. Í framkomu gagnvart öðrum er hann hrokafullur, óþægilegur og særandi, þótt stundum sé sú framkoma hulin slikju yfirborðskurteisi. Hann lítillækkar aðra og hagnýtir sér þá leynt og ljóst, hvort sem hann verður þess var eða ekki. Hann notar konur til að fullnægja kynferðislegum þörfum sínum án tillits til tilfinninga þeirra. Hann hagnýtir sér fólk í barnalegri einfeldni þess. Hann myndar tengsl við aðra ef það þjónar sigurþörf hans, hefur samband við fólk, sem hann getur notað sér á framabraut sinni, mikilsmegandi konur, sem hann getur komist yfir og beygt til hlýðni, fylgismenn sem viðurkenna hann í blindni og efla vald hans.

Hann er útfarinn í að hrella aðra, ergja þá og valda þeim vonbrigðum, hundsa þá og forðast að veita þeim athygli, huggun eða trúnaðartraust, tíma, félagsskap og gleði. Þegar mótmælt er slíkri meðferð, er þeim sem fyrir verða gjarnan svarað með því að viðbrögð þeirra séu óeðlileg eða taugaveiklun. Þessi viðhorf eru af mörgum kölluð sadismi, sem er frekar óheppilegt orð, en í svokölluðum sadisma er hefndarþörfin ríkasta markmiðið.

Innst inni telur hann markmið þessi eðlilegan og lögmætan vopnabúnað í baráttu allra gegn öllum. Hann væri auli, ef hann væri ekki á verði eða treysti afl sitt í varnarbaráttunni. Hann verður alltaf að vera viðbúinn því að slá til baka. Hann verður undir öllum kringumstæðum að vera hinn ósigrandi herra.

Hefndarþörfin kemur einna greinilegast fram í kröfum hans á aðra og hvernig þeim er fylgt eftir. Hann hefur þær e.t.v. ekki opinberlega í frammi og verður þess yfirleitt ekki var, að hann geri kröfur á aðra. En kjarni málsins er sá, að honum finnst eðlilegt að aðrir virði þarfir hans skilyrðislaust og að jafnframt sé honum leyfilegt að vanvirða þarfir og óskir annarra. Honum finnst hann til dæmis hafa rétt til að viðhafa óþægilegar eða óheflaðar athugasemdir og gagnrýni á aðra, jafnframt því sem hann eigi rétt á að vera ekki gagnrýndur. Hann ákveður hvenær og hve oft skuli fara í heimsóknir til annarra eða hvernig eigi að ráðstafa þeim tíma, sem hann ver með öðrum. Á hinn bóginn hefur hann rétt á því, að aðrir láti ekki í ljósi vonir eða athugasemdir að þessu leyti.

Hvað sem veldur þessum kröfum, þá lýsa þær mikilli fyrirlitningu á öðrum. Þegar ekki er orðið við þeim, birtist hin refsandi hefnd, hvort sem er í óánægju, ólund, reiðiköstum eða aðrir látnir finna til sektar. Að hluta til eru þessi viðbrögð gremja sprottin af vonbrigðum. Með því að láta þessar tilfinningar hispurslaust í ljós, verða þær tæki til að fá kröfunum fullnægt. Þannig hótar hann öðrum, sem gjarnan vilja kaupa sér frið. Haldi hann á hinn bóginn ekki fram rétti sínum eða sýni ekki fulla hörku, verður hann reiður sjálfum sér og skammar sig fyrir að vera veikgeðja. Hann er því stöðugt óánægður. Honum finnst ástæða til þess og sannarlega ekki verra að aðrir viti af því. Allt þetta, einnig óánægja hans, getur verið dulvitað.

Hann réttlætir kröfur sínar gjarnan með sérstökum gáfum eða hæfileikum, sem í huga hans eru yfirburða þekking, vísdómur og framsýni er hann búi yfir. Kröfur hans eru uppbætur vegna fyrri ranginda. Til að halda uppi kröfum sínum, verður hann að geyma og viðhalda rangindum, gömlum og nýjum. Hann gleymir engu. Hann sér hagsmuni sína af því að gleyma ekki misgjörðum, þar sem þær eru í huga hans reikningur hans á umheiminn. Þörfin fyrir að réttlæta kröfurnar og viðbrögð við vonbrigðum vegna þeirra, eru vítahringur, sem stöðugt elur á hefndarþörf hans.

21.1 BANN VIÐ BATA.

Margir hafa séð, að á eftir hverju framfaraspori kemur gjarnan afturkippur. Þetta á einnig við um hefndarsigur. Hvert skref í átt til fólks, umhverfis og lífsins, grefur undan kröfum okkar og hverju því sem hefndarsigri fylgir. Okkur finnst það ómissandi huglægt séð. Ef grafið er undan hefndarsigri, þá sér viðkomandi e.t.v. ekki annan valkost en að gera sig að engu eða góðmenni, sem allir notfæri sér. Hefndarsigurinn er álitinn eggjandi upplifun, sem veitir tilfinningu fyrir styrkleika og að maður sé lifandi. Menn vilja ekki missa af slíku. Þessi barátta er þó yfirleitt ekki bein eða augljós, heldur falin með óbeinum hætti í fíngerðari þáttum.

Við getum fengið áhuga á að sigra sálfræðina, ef svo má að orði komast. Við höfum þá eingöngu áhuga á því, sem veitir okkur meiri og öruggari hefndarsigur. Hefndarsigur, sem verður árangursríkari og hægt er að vinna með stillingu og reisn, án þess að það kosti okkur neitt. Ef við göngum í það t.d. að reyna að yfirvinna tilhneigingu til að geðjast öðrum eða sækjast eftir velþóknun, eða að við viljum yfirvinna tilfinningu fyrir því, að við séum réttlaus, þá getur það verið í þágu hefndarsigurs. Það sýnir hve hugarins vefur hangir allur saman. Við viljum e.t.v. reyna að komast yfir eigin sjálfsfyrirlitningu til að verða hæfari í baráttu hins ytri heims, sem í sjálfu sér er gott. En við megum þá ekki missa sjónar á að draga úr hrokafullum kröfum okkar eða tilfinningunni fyrir að vera misnotuð, og við megum ekki þjást undan ranglæti annarra. Útkoman getur orðið status quo, þ.e. við hættum að rannsaka mannleg samskipti okkar og drögum okkur í eigin skel. Við verðum að sjá dulda tilhneigingu sem er í okkur til að velja, það sem við teljum okkur henta.

Ég vil leggja áherslu á, að þótt þessar hættur leynist, varðar viðleitnin meiru en sýnilegur árangur. Okkur hættir til að gefast upp, halda í gagnstæða átt og kveða upp eins konar vonleysisdóma. Með því er tekin dulvituð ákvörðun um að halda sér niðri eða árangur bældur niður. Alger bati eða frelsi er þá notað sem viðmiðun. Upp kemur vantrú á að geta leyst eigin vanda og vonað er að málin leysist af sjálfu sér á réttum tíma. Gleymska og óskýr hugsun hjálpa til. Vandamálin hvíla þá á eins og mara, ógnandi og skapa tilfinningu um veikleika. Maður finnur sig hjálparvana á leikvangi örlaganna, þ.e. eygir enga möguleika til að taka örlögin í eigin hendur. Eiginn veikleiki er þannig notaður sem afsökun.

21.2 UPPRUNI.

Hver er uppruni hefndarsigurs? Auðvitað er hans að leita í æsku. Þeir sem tileinka sér lífsstíl hefndarsigurs hafa öðlast slæma reynslu i æsku. Ofbeldi, lítillækkun, háð, spott, vanræksla og hræsni, allt þetta er jarðvegur fyrir slíkan lífsstíl. Þeir sem lifðu af í fangabúðum nasista sögðu að það hafi gerst vegna þess að þeir bældu með sér allar fínlegri tilfinningar, svo sem samúð með sér og öðrum. Börn geta alist upp við mikla hörku. Leit þeirra að samúð, áhuga eða ástúð annarra getur endað með því að fíngerðari viðhorf og þarfir eru aflagðar. Þau sannfærast smátt og smátt um, að ástúð sé hvergi að fá, jafnvel að hún sé yfirleitt ekki til. Þá er tekið gagnstætt viðmið og ástúð fyrirlitin, að minnsta kosti ekki óskað eftir henni. Slíkt skref hefur alvarlegar afleiðingar í för með sér, þar sem þörf fyrir ástúð, mannlega nálægð og hlýju er hvati til að þroska þá eiginleika, sem gera okkur geðfelld. Tilfinning fyrir að vera elskuverður er eitt mesta gildi lífsins. Að vera það ekki veldur gjarnan þjáningu. Sá sem lifir fyrir hefndarsigur hefur brugðist við þeirri þjáningu með þeim einfalda en örlagaríka hætti að sannfæra sig um, að hann sé ekki elskuverður og það skipti hann ekki máli, honum sé sama um það. Hann hefur þá misst alla þörf fyrir að geðjast öðrum, en fengið þess í stað, a.m.k. í eigin huga, tækifæri til útrásar fyrir hina innibyrgðu eigin reiði og hatur.

Hér er byrjun þess sem síðar verður. Hefndarsigur getur verið bældur af hagkvæmnisástæðum og þörf fyrir háttvísi, en á móti honum er lítið um tilfinningar samúðar, væntumþykju eða þakklætis. Til að skilja af hverju sú þróun að brjóta niður allar jákvæðar tilfinningar varir til æviloka, þótt fólk megi síðar sækjast eftir vináttu og ást viðkomandi, verður að líta til meginviðhorfs hans til að komast af: ímyndun hans og horf til framtíðar. Hann ætlar sér að verða óendanlega betri eða meiri en "þeir". Hann ætlar að verða stór og gera öðrum skömm til. Hann mun sýna "þeim", hvernig "þeir" hafa vanmetið hann og gert honum rangt til. Hann verður hetja, ásækjandi, leiðtogi, vísindamaður sem öðlast óendanlega frægð. Knúinn áfram af skiljanlegri þörf fyrir að fá uppreisn æru, hefndar og sigurþörf, ætlar hann að verða mestur og njóta andlegrar frægðar, verða snillingur í smáu og stóru, verða ódauðlegur. Þetta verða ekki hugarórar einir. Hann hefur trú á áætlunarverki eða köllun, sem stýrir lífshlaupi hans. Knúinn til að sigra á sigur ofan, í smáu og stóru, lifir hann fyrir dag reikningsskilanna.

Þörfin fyrir að sigra og þörfin fyrir að afneita jákvæðum tilfinningum, svo sem samúð og ástúð, eru samofnar og eiga rót að rekja til bernskuára. Þessar þarfir efla hvor aðra. Hörðnun tilfinninga, sem upprunalega var nauðsynleg til að halda velli, veitir þörfinni fyrir sigur óhindrað rúm til að þróast. En þessi þörf, óseðjandi stoltið sem er fylgifiskur hennar, verður að ófreskju, sem gleypir æ meir af öllum tilfinningum. Ást, samúð, tillitssemi, allt sem er manneskjulegt, verður hindrun á leið til hinnar aðvífandi lokadýrðar. Hann verður því að vera kaldur, ósnortinn og óháður.

Ófáir einvaldskóngar eða einræðisherrar hafa náð völdum með því að fórna vináttu, ást og öðru sem veitir gleði í lífinu. Mannlegar tilfinningar eru látnar lönd og leið. Raunsjálfinu er fórnað fyrir sigur. Því hefur verið lýst í fjölmörgum skáldsögum, hvernig þetta gerist, stig af stigi, óafvitað. Að viðurkenna mannlegar þarfir, verður fyrirlitlegur veikleiki. Viðkomandi óttast auðsveipni og eflir þess í stað hefndarsigur sinn eða framið er sjálfsmorð eins og gerðist í leikriti Ibsens, Heddu Gabler.

21.3 STOLT.

Við höfum nú skoðað lauslega mannleg samskipti og þær kröfur er sá gerir út á við, sem lifir fyrir hefndarsigur. Við skiljum að nokkru hefnd hans og kulda. Samt sem áður skiljum við ekki hið huglæga gildi hefndarsigurs, styrk hans né hinar ófyrirleitnu kröfur nema því aðeins að skoða, hvað gerist hið innra og áhrif þess á hið ytra.

Meginaflið felst í þörf fyrir að jafna sakirnar, fá uppreisn og viðurkenningu. Hann finnur sig úrhrak og þarf að sanna eigið gildi fyrir sjálfum sér. Hann getur aðeins sannað fullkomlega sitt eigið gildi með því að eigna sér sérstaka eiginleika og hæfni. Fer eðli þeirra og gæði eftir þörfum hans og markmiðum. Fyrir mann, einangraðan og fjandsamlegan, er auðvitað mjög mikilvægt að þarfnast ekki annarra. Þess vegna þroskar hann með sér það ákveðna stolt að vera sjálfum sér nógur. Hann verður of stoltur til að biðja um nokkuð og getur ekki þegið neitt með hjartans þakklæti. Að vera þiggjandi gerir hann lítilmótlegan og því finnur hann ekki til þakklætis. Þar sem hann hefur kæft jákvæðar tilfinningar, verður hann eingöngu að treysta á gáfur sínar til að ná tökum á lífinu. Því eflist stolt hans af vitsmunalegum hæfileikum um allan helming, t.d. stolt af árvekni, að geta leikið á aðra, framsýni og skipulagshyggju. Þar sem líf er fyrir honum barátta allra gegn öllum, verður hann að hafa óbilandi styrk. Að vera ósæranlegur er ekki aðeins æskilegt, heldur nauðsynlegt.

Þar sem stoltið verður þannig yfirgnæfandi, er hann mjög berskjaldaður. Hann leyfir sér ekki að finna til sárinda, því stolt hans bannar það. Þannig harðnar hann stöðugt til að vernda stoltið. Stoltið sem felst í að vera hafinn yfir særindi og þjáningar. Ekkert, hvorki flugur né menn, slys eða óhöpp, geta sært hann. Með því að vita ekki af sárindunum, losnar hann við sársaukann og það dregur e.t.v. úr hefndarþörfinni. Hún verður í huga hans að réttlátri reiði yfir rangindum, sem afsakar hegningu gagnvart hinum ranglátu. Ef særindin rista dýpra en skel ósæranleikans, verða þau óbærileg. Þegar þau koma t.d. til viðbótar særðu stolti vegna vöntunar á viðurkenningu annarra, þá þjáist hann vegna lítillækkunar sem fylgir því að hafa "leyft" einhverjum að særa sig. Sá sem yfirleitt er í jafnvægi, lendir þá í miklum tilfinningalegum erfiðleikum.

Auk stolts og trúar á ósæranleika kemur svonefnd trú á ónæmi og refsileysi, sem mjög er skyld. Hún er dulvituð og stafar af frelsi, sem maðurinn veitir sér til að breyta gagnvart öðrum að eigin vild, án þess að þeir bregðist við eða snúist gegn honum. Með öðrum orðum: Enginn getur sært mig án þess að vera refsað, en ég get sært alla án þess að vera refsað. Til að skilja nauðsyn þessarar kröfu skulum við athuga viðhorf hans til fólks. Við vitum, að hann særir fólk auðveldlega með herskáu réttlæti sínu og hrokafullu refsiviðhorfi, og með því að hagnýta það sér til framdráttar. Samt sem áður lætur hann ekki í ljósi allan þann fjandskap, sem hann finnur til, heldur dregur úr honum. Þegar hefndarreiðin nær ekki yfirtökum á skaphöfninni, er hann agaður, gætinn og árvakur. Þess vegna gæti hann virst bæði skeytingarlaus og gætinn í skiptum sínum við fólk. Það er einmitt speglun þeirra afla, sem að verki eru innra með honum. Hann verður jöfnum höndum að láta aðra finna réttláta reiði sína og halda aftur af sér. Hann verður einnig að halda öðrum við efnið og láta þá finna fyrir styrkleika sínum, árásin er besta vörnin.

Hann verður einnig að hemja árásarhneigð sína vegna þess að hann er óttasleginn. Þótt hann sé of hrokafullur til að viðurkenna fyrir sjáfum sér, að einhver geti ógnað honum eða haft áhrif á hann, er hann samt sem áður hræddur við fólk. Margar ástæður eru til þess. Hann er hræddur um, að aðrir muni svara í sömu mynt eða hefna sín og að þeir geti truflað þær ráðagerðir sem hann hefur um þá, gangi hann of langt. Hann óttast þá líka af því að þeir hafa vald til að særa stolt hans. Þá óttast hann aðra vegna þess að hann verður að ýkja fjandskap þeirra til að réttlæta eigin fjandskap. Að afneita þessum ótta jafngildir ekki að losna við hann. Hann þarf meiri tryggingu. Hann getur samt sem áður ekki læknað óttann með því móti að láta ekki í ljósi fjandskap. Fjandskapinn verður hann að láta í ljós án ótta. Krafa um friðhelgi, sem síðan verður sannfæring um friðhelgi, virðist leysa þennan vanda.

Þá er hann stoltur af heiðarleika sínum, sanngirni og réttlæti. Ekki þarf að upplýsa, að hann er hvorki heiðarlegur né sanngjarn og ekki heldur réttlátur, enda getur hann ekki verið það. Þvert á móti, ef einhver er dulvitað ákveðinn að blekkja í lífinu án tillits til sannleikans, þá er það hann. Þó er kleift að skilja trú hans á því, að hann sé gæddur þessum eiginleikum í talsverðum mæli, ef litið er á forsendur hans. Að svara fyrir sig eða öllu fremur að vera fyrri til að gera árás, er fyrir honum röklega séð ómissandi vopn gegn hinum fjandsamlega og svikula umheimi. Það er aðeins skynsamleg og lögmæt eiginhagsmunavarsla. Einnig þegar litið er til þess að hann dregur ekki kröfur sínar í efa, verður reiði hans og útrás hennar algjörlega heimil og eðlileg. Hann kallar slíka útrás "hreinskilni".

Annað atriði, sem vert er að minnast á, veldur því sérstaklega, að hann er sannfærður um, að hann sé sérstaklega heiðarlegur maður. Hann sér í kring um sig margt fólk, sem reynir að geðjast öðrum og þykist vera elskulegra, samúðarríkara og örlátara en það er í raun. Að þessu leyti er hann einmitt heiðarlegri. Hann gerir sér ekki upp vinsamlegheit og forsmáir slíkt. Ef hann gæti látið við það sitja að segja: "að minnsta kosti geri ég mér ekki upp...", þá væri hann á góðum grunni. En þörf hans fyrir að réttlæta eigin kulda þvingar hann til að taka annað skref. Hann hefur tilhneigingu til afneita því, að ósk um að vera hjálpsamur eða vinsamlegur, sé nokkurn tíma sönn. Hann véfengir ekki vinsamlegheit fræðilega séð, en þegar kemur að ákveðnu fólki, hefur hann tilhneigingu til að álíta slíkt undantekningalaust uppgerð og hræsni. Þessi leikur gerir hann öðrum fremri, honum sýnist hann sjálfur vera maður sem sé hafinn yfir hræsni.

Lítið umburðarlyndi gagnvart ástúðarhræsni og velvildaruppgerð á sér dýpri rætur. Undir niðri eru bældar tilfinningar og viðhorf til að geðjast fólki með einum eða öðrum hætti. En þar sem hann hefur gert sig að tæki til að afla væntanlegra sigurvinninga, verður að bæla slíkar tilhneigingar rækilega og það enn frekar en narcissus eða perfektionistinn gera. Þegar hefndarsigurinn bráðnar við sjálfsskoðun, finnst honum hann fyrirlitlegur og hjálparvana, jafnframt því sem hann sækist eftir ástúð. Því er eðlilegt að hann fyrirlíti í öðrum, ekki aðeins uppgerð þeirra og yfirdrepskap að því er tekur til ástúðar, heldur og eftirsókn þeirra eftir velþóknun, tilhneigingu til að gera lítið úr sér og hjálparvana eftirsókn þeirra eftir ást. Í stuttu máli, hann fyrirlítur í þeim þær tilhneigingar, sem hann hatar og fyrirlítur í sjálfum sér.

21.4 SJÁLFSFYRIRLITNING OG HATUR.

Sumum finnst þessar lýsingar óraunhæfar. Þessi mannlýsing er þó nauðsynleg til skilnings á mörgum manninum og margir þættir lýsingarinnar eiga við alla, þegar betur er að gáð. Er ágætt að láta það, sem um er fjallað í þessum þætti hljóma í fjarlægð fyrst í stað, aldrei er að vita nema lýsingin komi að notum síðar. Ég tel líka hentugt, að lýsa því fyrst í fari okkar sem við viljum helst vera laus við, áður en ráðist er til atlögu við það, sem við teljum æskilegt, þótt svo sé raunverulega ekki. En víkjum aftur að efninu.

Sá sem haldinn er hefndarsigri, er fullur sjálfsfyrirlitningar og sjálfshaturs, sem alltaf er miskunnarlaust og grimmt. Styrkleiki þess og áhrif eru þó háð því, hversu mikil tök stoltið hefur og hve mikið jákvæð öfl andæfa gegn því. Jákvæðu öflin geta verið trú á gildi lífsins eða einhver hlýja og velvild gagnvart sér sjálfum. Þar sem slíkir þættir eru sjaldgæfir í þeirri manngerð, sem hér um ræðir, verður sjálfshatrið skaðvænlegra en hjá venjulegu fólki. Við sjáum hvernig slíkir menn þræla fyrir gloríuna, hvernig þeir í raun angra sig og klekkja á sér, en fegra það og gylla fyrir sjálfum sér sem virðingaverða sjálfsafneitun og meinlæti.

Slíkt sjálfshatur kallar á verndarráðstafanir. Að beina því út, þ.e. útvarpa eða frávarpa því, er að sjálfsögðu nauðsynleg sjálfsvörn. Eins og hjá narcissus og perfektionistanum, er frávarpið með virkum hætti, þ.e. hann fyrirlítur og hatar allt það í fari annarra, sem hann hatar og bælir í sjálfum sér. Hann hatar lífsgleði og óyfirvegaða hegðun annarra, vinsamlegheit og velvild þeirra, hvernig þeir kaupa sér frið, uppgerð, hræsni og yfirborðsmennsku þeirra og "heimsku". Hann þröngvar eigin stöðlum upp á aðra og refsar, ef ekki er staðið við þá. Að láta aðra verða fyrir vonbrigðum er að hluta frávörpun á eigin tilhneigingu til að angra sjálfan sig. Refsiviðhorf hans gagnvart öðrum, sem hefur yfirbragð hefndar, er blandað fyrirbrigði. Það er að hluta hefnd, að hluta frávarp á eigin sjálfsásökunum og að hluta hótun gagnvart öðrum til að tryggja framgang eigin krafna. Gæta verður að öllum þessum þrem þáttum.

Aðalráðstöfunin til verndar sjálfshatri er að reyna með öllum ráðum að koma í veg fyrir að hann sjái að hann sé ekki það, sem hann samkvæmt eigin stolti ætti að vera. Auk frávarps, notar hann varnarhætti eins og sjálfbirgingshátt og sjálfsréttlætingu í svo miklum mæli og ósveigjanlega að hann tekur jafnvel ekki rökum. Í deilum, sem upp rísa, virðist honum sannleikurinn ekki skipta máli, þar sem hann metur sannleikan fjandsamlega árás. Henni svarar hann þegar í stað með gagnárás. Hann hefur ekki efni á, jafnvel í litlum mæli, að draga í efa eigið réttmæti.

Enn ein ráðstöfunin til að sjá ekki eigin galla eða ófullkomleika, er að gera kröfur á aðra. Áður hefur verið bent á, hvernig hann telur allan rétt sín megin, en aðra réttlausa. Þrátt fyrir hina miklu hefndarþörf, gæti hann samt sem áður verið sanngjarnari gagnvart því, sem hann krefst af öðrum, ef ekki væri knýjandi nauðsyn til að vernda sig gegn eigin sjálfshatri. Í þessu ljósi má sjá, að krafa hans er að aðrir hegði sér með þeim hætti, að ekki veki sektarkennd eða efa hjá honum. Ef hann getur sannfært sig um, að hann eigi rétt á að hagnýta sér aðra og gera þá vonsvikna, án þess að þeir mögli eða reiðist, þá kemst hann hjá því að verða var við tilhneigingar sínar til að hagnýta sér aðra og gera þá vonsvikna. Ef hann á rétt á því, að aðrir geti ekki vænst blíðu, þakklætis eða tillitssemi, þá eru vonbrigði þeirra aðeins þeirra mál og snúa ekki að honum, þ.e. hann verður ekki sakaður um að hann sé ósanngjarn gagnvart þeim. Hvers konar vafi sem gæti gripið hann um að hann hafi brugðist í mannlegum samskiptum, um að aðrir hafi ástæðu til að reiðast viðhorfi hans, yrði eins og skarð í flóðgarði, sem valdið gæti stórflóði sjálfsásakana er sópaði í burtu hinn tilbúnu sjálfsvissu hans.

Þegar við sjáum þannig hlutverk stoltsins og sjálfshatursins hjá þessum manni, skiljum við hann betur og það mildar viðhorf okkar til hans. Ef við lítum aðeins til mannlegra samskipta hans, getum við sagt, að hann sé hrokafullur, harðlyndur og kaldrifjaður, hann hugsi aðeins um sjálfan sig og sé hefnigjarn, eða við með öðrum hætti lýsum þeirri árásarhneigð, sem við getum orðið fyrir af völdum hans. Þessi lýsing er að sjálfsögðu rétt. En þegar við lítum til þess, hversu djúpt hann er sokkinn og flæktur í eigin sálarflækju, sem stoltið hefur leitt hann í, þegar við sjáum til hvaða varna hann verður að grípa til að verða ekki sundurkraminn af eigin sjálfshatri, þá sjáum við að þarna er á ferðinni hrjáður maður, sem berst fyrir tilvist sinni. Sú lýsing er ekki síður rétt.

21.5 HIN INNRI LEIÐ.

Við höfum nú séð lýsingu þessa manns, annars vegar á mannlegum samskiptum og hins vegar innri baráttu. Hvor þátturinn er mikilvægari? Því verður ekki svarað, en hann á alltaf erfitt með að taka til endurskoðunar mannleg samskipti sín. Hann stendur þar á hæpnum grunni og sá veruleiki er honum fjarlægur. Honum er annt um að snerta ekki við þeim vandamálum. Þess vegna er það hin innri hlið málsins, ef svo má segja, sem gefur nokkra von.

Aðrar ástæður leiða einnig til þess, að betur reynist að takast fyrst á við hin innri öfl. Það eru hinir innri þættir, sem einmitt valda tilhneigingunni til hins hrokafulla hefndarsigurs. Ekki er hægt að skilja hrokann nema líta til stoltsins og viðkvæmni þess. Ekki er heldur hægt að sjá styrkleika hefndarviðhorfanna, nema sjá að verið er að verja sjálfan sig gegn sjálfshatri o.s.frv. Hinir innri þættir efla ekki aðeins áráttuna, heldur gera þeir hana að þvingandi nauðsyn. Því er ljóst, að tilgangslaust er að takast beint á við fjandskapinn gagnvart öðrum. Viðkomandi hefur engan áhuga á að sjá hann og enn síður að rannsaka hann, á meðan þeir þættir eru ríkjandi, sem gera áráttuna að þvingandi nauðsyn, þ.e. á meðan hann getur með engu móti gert neitt í málinu.

Þörfin fyrir hefndarsigur er vissulega fjandsamleg og hrokafull tilhneiging. En það sem gerir hana að þvingandi nauðsyn, er þörfin fyrir að réttlæta sjálfan sig og veita sér uppreisn æru. Þessi þörf var einlæg í fyrstu. Með því að byrja í lægsta manngildisþrepi, verður viðkomandi einfaldlega að sanna tilvist sína, sanna gildi sitt. Slík þörf verður áfram knýjandi til að rétta við stoltið og til að verja sig gegn þeirri sjálfsfyrirlitningu, sem læðist að honum. Með sama hætti verður hún áfram nauðsynlegt til að koma í veg fyrir allan efa og sjálfsásakanir. Því verður sú knýjandi nauðsyn varanleg að hafa alltaf á réttu að standa og að gera hrokafullar kröfur á aðra. Hann verður þannig herskár og árásargjarn. Þá leiðir þörfin fyrir að frávarpa sjálfshatrinu til þess, að honum verður nauðsynlegt að ásaka aðra, gagnrýna þá og refsa þeim.

Eins og áður segir, getur hefndarsigur aukist stig af stigi, ef þau öfl, sem venjulega hamla á móti eru ekki að verki. Meginástæðan fyrir því að þessi öfl eru ekki virk, býr í innri þáttunum þar sem öll blíða og viðkvæmar tilfinningar eru kæfðar þegar í æsku. Leiðir það til aukinnar tilfinningalegrar herðingar. Þetta var talið nauðsynlegt vegna viðhorfs og viðbragða annarra og var ætlunin að verjast þeim. Þörfin fyrir að gera sig ónæman fyrir þjáningu magnast mjög vegna hins særanlega stolts og hún nær hámarki í ósæranleikastolti hans. Löngun hans til mannlegrar hlýju og ástúðar, bæði að gefa og þiggja, sem upprunalega var hindruð af umhverfinu og var síðan fórnað fyrir þörfina fyrir hefndarsigur, frýs að lokum með dómsorði sjálfshatursins, að hann sé ekki elsku verður. Um leið og hann snýst gegn öðrum hefur hann engu að tapa, sem nokkurs er virði, því hann telur fráleitt, að aðrir hafi á honum ást, en hati hann áreiðanlega og því skuli þeir í það minnsta vera hræddir við hann. Heilbrigður áhugi á sjálfum sér, sem annars myndi hefta hefndarsigur, verður í lágmarki. Hann virðir einskis persónulegan velfarnað. Jafnvel óttanum við aðra, sem jafnan ríkir að einhverju marki, er haldið niðri með stolti hins ósæranlega og tilfinningalausa.

21.6 ÖFUND.

Sá sem haldinn er hefndarsigri, hefur litla eða jafnvel enga samúð með öðrum. Ástæðan er einkum fjandskapur hans gagnvart öðrum og skortur á samúð með sjálfum sér. Það sem einkum veldur tilfinningaleysi hans gagnvart öðrum er öfund. Beisk öfund, sem gegnsýrir allt og stafar fremur af tilfinningu hans fyrir því að vera almennt útilokaður frá lífinu en kosta annarra umfram hans. Það er að vísu rétt, að í eigin flækjum er hann útilokaður frá öllu, sem gerir lífið einhvers virði. Hann er útilokaður frá hlutdeild í gleði, hamingju, ást, sköpunargleði og þroska. En er það ekki hann sjálfur sem hefur snúið baki við lífinu? Er hann ekki stoltur af þeim meinlætum sínum, að langa ekki í neitt eða þarfnast einskis? Heldur hann ekki aftur af öllum jákvæðum tilfinningum? Því skyldi hann þá öfunda aðra? Staðreyndin er sú, að hann gerir það. Hann myndi samt sem áður ekki viðurkenna það, en honum finnst það sjálfgefið að aðrir hafi það betra en hann. Hann gæti orðið fjúkandi reiður einhverjum, einfaldlega vegna þess að hann er alltaf í góðu skapi og áhugasamur um eitthvað. Honum finnst sem slíkur maður vilji af illum hug lítillækka hann með því að stæra sig af eigin hamingju. Að skynja hlutina með þessum hætti veldur ekki aðeins hefndarreiðiköstum, svo sem að vilja spilla gleði annarra, heldur einnig annarlegum kulda, sem felst í því að hafa enga samúð með þjáningum annarra. Hedda Gabler eftir Henrik Ibsen er góð lýsing á þessu. Þannig særir það stolt hans að einhver skuli hafa eitthvað, sem, hvort sem hann langar í það eða ekki, er utan seilingar hans.

En þessi skýring ristir þó ekki nógu djúpt. Þótt hann segi að vínber lífsins séu súr, finnst honum þau samt sem áður girnileg. Því má ekki gleyma, að sjálfviljugur snéri hann ekki baki við lífinu og það sem í staðinn kom er fátæklegt. Með öðrum orðum, þótt lífslöngun hans sé bæld hefur hún ekki slokknað. Hann getur ekki heldur snúið við til lífsins nema eitthvað í honum kalli á fyllra líf.

Þessi innsýn er líka nauðsynleg til þess að öðlast betra viðhorf gagnvart svona manni. Viðbrögð flestra gagnvart honum er annað hvort að láta undan, þ.e. sveigja af vegna hótana hans eða að hafna honum með öllu. Hvorugt á rétt á sér. Ef við óttumst hótanir hans, forðumst við vandann og ekki er það vænlegt til árangurs að hafna honum. Með nauðsynlegri samúð, virðingu og skilningi skynjum við að þessi maður þjáist og stendur í mikilli baráttu þrátt fyrir öll mótmæli hans.

21.7 LEIÐIRNAR ÞRJÁR.

Ef við aðeins lítum til hinna þriggja lausna, sem ég hefi lýst í þáttunum hér á undan, þ.e. narcissus, perfektionisma og hefndarsigur, þá er markmið þeirra allra að ná tökum á lífinu. Með þessum hætti er reynt að sigrast á ótta og kvíða, fá tilgang í lífið og lífslöngun. Þessu er reynt að ná með mismunandi hætti. Með sjálfsaðdáun og persónutöfrum (narcissus), með því að bjóða örlögunum birginn úr hæðum eigin staðla siðferðis og greindar (perfektionistinn) og með því að gerast ósigranlegur og leggja undir sig lífið með hefndarsigri.

Mikil er fjölbreytnin í litrófi tilfinninganna, allt frá áköfum tilfinningahita og lífsgleði við einstök tækifæri, til kala og firringar og að lokum til kuldanepju. Þetta ræðst að mestu af afstöðu til eigin tilfinninga. Narcissus getur verið vinsamlegur og örlátur við vissar kringumstæður í gnægð sinni, jafnvel þótt á vafasömum grundvelli sé. Perfektionistinn getur verið vinsamlegur, af því að hann ætti að vera vinsamlegur. Sá sem haldinn er hefndarsigri hefur tilhneigingu til að bæla vinsamlegar tilfinningar og fyrirlítur þær.

Allir eru haldnir miklum fjandskap. Í narcissus getur þó örlætið verið yfirsterkara og fjandskapurinn er bældur í perfektionistanum, því hann ætti ekki að vera fjandsamlegur. Hjá þeim sem haldinn er hefndarsigri er fjandskapurinn ódulinn og getur orðið meiri skaðvaldur, af ástæðum sem minnst hefur verið á.

Væntingar frá öðrum taka mið frá aðdáun og hollustu (narcissus), til virðingar (perfektionistinn) til hlýðni (hefndarsigur). Grundvöllur krafna á lífið eru frá barnslegri trú á mikilleik (narcissus), til ítarlegs samnings við lífið (perfektionistinn) til maklegra málagjalda fyrir gerðan miska (hefndarsigur).

Hversu erfið leiðin verður til baka, til Sjálfsins, fer eftir því hversu umræddar tilhneigingar hafa fest djúpar rætur í manninum og hversu mikla hvöt hann hefur og mikið frumkvæði hann sýnir til að losa sig við þær.