XIX Hvað er perfektionismi?
19.0 GAGNSTÆÐUR.
19.1 SÓKN Í YFIRBURÐI.
19.2 SUPEREGÓ.
19.3 ORSAKIR ÁRÁTTUNNAR.
19.4 KVÍÐI PERFEKTIONISTANS.
19.5 PERFEKTIONISTINN.
19.0 GAGNSTÆÐUR.
Í fljótu bragði virðist það ekki rökrétt að taka fyrir persónuleika fyrirmyndarinnar, perfektionistans, næst á eftir narcissus, svo gagnólíkir eru þessir persónuleikar. En nokkrar ástæður eru til þess að sá háttur er á hafður og skal gerð grein fyrir þeim áður en lengra er haldið, því það er nauðsynlegt til skilnings á efninu í heild.
Eins og ég hefi sagt oft í þessum þáttum, þá er flóttinn frá Sjálfinu, meginvandamálið. Við sækjumst eftir dýrð og dásemd, íklæðumst skyldum, fyllumst stolti, fyrirlítum og hötum sjálf okkur, gerum kröfur á umhverfið og ýmsar aðrar árangurslausar ráðstafanir til að öðlast jafnvægi eða hamingju. Ég lýsti þessu sérstaklega í upphafsþáttum mínum. Þar er því hins vegar ekki lýst, hvernig þessir þættir verka eða hafa áhrif í ákveðnum persónuleikum. Sú mynd fer eftir lausninni, sem hver einstaklingur velur sér til að leysa innri árekstra.
Á milli egósins annars vegar með sjálfímynd sinni, kröfum, skyldum, stolti, sjálfsásökunum og sjálfsfyrirlitningu og Sjálfsins hins vegar, er yfir mikið djúp að fara, sem meira en meðalkjark þarf til að stökkva yfir. Milli þessara afla eru átök, sem við verðum yfirleitt ekki vör við, fyrr en tekist hefur að draga verulega úr átökum egósins. Um er að velja egóið annars vegar eða Guð, Atman eða Kristseðli í sjálfum okkur hins vegar. Þessa valkosti, sjáum við ekki eða teljum óraunhæfa á meðan glíma egósins varir. En valið þarna á milli er örlagaríkasta stökkið, sem skiptir öllu máli.
Innan egósins eiga sér stað stöðug átök, sem hugurinn snýst um. Þar skiptast á sjálfsupphafning og sjálfsfyrirlitning, sem eru í sjálfu sér gagnstæðar sjálfsmyndir, því við erum að meta okkur með gagnstæðu móti. Þessar sjálfsmyndir bæta hvora aðra upp, en þar með verðum við ekki vör við markmið, sem valda átökum þessara andstæðna. En hvernig upplifum við sjálf okkur? Hver er ég? Er ég hinn sjálfsupphafni eða er ég maður bælingar og sektar, hins sjálfsfyrirlitna? Venjulega spyrja menn ekki þessara spurninga, nema þeir séu skáld eða heimspekingar. En ruglingurinn kemur skýrt í ljós í draumum, einkum hvernig við höfum týnt raunsjálfi okkar. Við megum ekki gleyma því, að í draumum erum við allt það sem birtist. Jafnvel í vöku getum við sveiflast milli þess að þykjast geta allt og þess að vera auðvirðileg. Þetta má greinilega sjá hjá drukknum mönnum, þó það einskorðist ekki við þá. Drukknir menn eru aðra stundina upp í skýjunum, með virðulegt látbragð og lofa miklu, en hina stundina aumir, niðurdregnir og fullir sjálfsfyrirlitningar.
Þannig getum við upplifað okkur ýmist upphafin eða fyrirlitleg, en einnig, þótt sjaldgæft sé og óljóst, getum við upplifað okkur sjálf. Þarf þá nokkurn að undra þó að kenni ruglings, þegar við spyrjum okkur hver við raunverulega séum? Um er að ræða heildarupplifun á því annars vegar að vera stolt af einhvers konar yfirburðum eða hins vegar á einhvern hátt fyrirlitleg.
Sá sem finnur til eigin yfirburða leitast við að breiða úr sér og hefur mikla trú á getu sinni. Oft er hann hrokafullur, metnaðargjarn, ágengur og frekur og gerir miklar kröfur á umhverfið. Honum finnst hann vera sjálfum sér nógur. Hann virðir ekki aðra og krefst aðdáunar eða hlýðni. Hinn finnur sig sem niðurbeygðan, finnst sem hann sé hjálparlaus. Hann hefur tilhneigingu til að friðþægja og geðjast, hann er háður öðrum og sækist eftir ástúð og velvild. Þar sem um er að ræða að samjafna sig algerlega annarri hvorri sjálfsmyndinni, leiðir það til gagnstæðs sjálfsmats, gagnstæðs viðhorfs til annarra, gagnstæðrar hegðunar, gagnstæðs gildismats, gagnstæðra markmiða og metnaðar og fullnægju gagnstæðs eðlis.
Ef við upplifum þessi tvö viðhorf samtímis, erum við eins og tvær manneskjur, sem vilja halda hvor í sína áttina. Það er afleiðing þess að samsama sig algjörlega þessum tveimur viðhorfum. Ekki er aðeins um að ræða gagnstæður, heldur gagnstæður, sem vilja kljúfa okkur í tvennt. Ef ekki er hægt að minnka þá togstreitu, myndast kvíði, sem reynt er að sefa með ýmsu móti, t.d. áfengisnotkun. Að sjálfsögðu eru þegar gerðar ráðstafanir til að leysa vandann.
Til þess að leysa vandann má segja, að séu þrjár leiðir. Einni þeirra er lýst í sögunni um doktor Jekyll og hr. Hyde. Sá kumpáni viðurkennir tvær hliðar á sér, annars vegar er hinn vammlausi og hins vegar syndarinn. Þeir eiga í stríði innbyrðis, en hvorugur er hann sjálfur. Hann reynir að leysa málið með því að lifa í þeim til skiptis. Þessu líkt gerum við oft, þ.e. við búum í ólíkum hólfum, einu í einu. Aðra stundina getum við verið full hógværðar og lítillætis en hina stundina breitt úr okkur og gortað, svo dæmi sé tekið. En þessi leið er almennt of ófullkomin til að hún leysi vandann.
Önnur leið, róttækari aðferð, er hin straumlínulagaða lausn. Hún er fólgin í því að bæla annað viðhorfið algerlega og varanlega, en lifa í hinu. Þriðja leiðin er svo að flýja frá öllu saman, annað hvort með því að draga sig í hlé eða hverfa á þann hátt að vera ekki neitt, vera samnefnari allra samnefnara. Þessar seinni tvær leiðir eru þó gagnstæður og skýrist það betur eftir því sem á þætti þessa líður.
Það skal endurtekið, að hér er um tvær meiriháttar gagnstæður að ræða. Í fyrsta lagi baráttuna milli hins stolta og hins fyrirlitlega sjálfs og í öðru lagi baráttuna milli þessara tveggja sjálfa og raunsjálfsins. Við sjáum yfirleitt ekki, að um þessi tvenns konar átök er að ræða, vegna þess að raunsjálfið er svo fjarlægt. Okkur hættir til að fyrirlíta allt í okkur, sem við erum ekki hreykin af, einnig raunsjálfið. Oft sjáum við ekki nema aðra gagnstæðuna, þ.e. baráttuna milli þess að breiða úr sér og að gera lítið úr sér. Síðar sjáum við svo megin gagnstæðuna, þ.e. milli hinna ytri átaka og raunsjálfsins.
19.1 SÓKN Í YFIRBURÐI.
Það er ekki auðvelt að tala um ákveðna persónuleika eða manngerðir. Í raun er það að mestu gert vegna þarfar fyrir reglu og skipulag. Sú umfjöllun hefur takmarkað gildi. Manngerðirnar eru blandaðar og lýsingin á þeim er aðeins sá þáttur sem út snýr. Með lýsingu á manngerðum er alls ekki verið að lýsa margbreytileika lífsins, heldur viðhorfi til fólks frá vissu sjónarhorni. Þetta hefur nokkra kosti, en einnig sínar takmarkanir. Alltaf verður að hafa í huga heildarmanngerðina. Þó sýnir manngerðin, hvaða heildarlausn á innri átökum maðurinn hefur tileinkað sér. En fólk er ólíkt eftir upplagi, hæfileikum o.s.frv. Flestir nota margar lausnir og gerir það málið enn flóknara. "Öll mál eru blönduð mál", sagði William James. Því ættu menn að taka með fyrirvara þá flokkun, sem ég notast við.
Við getum litið á heildarlausnirnar frá því sjónarmiði, að ein lausnin felist í að breiða úr sér og sýna yfirburði, önnur lausnin fari í gagnstæða átt, sem er að sækjast eftir ástúð, velþóknun og góðvild, hin þriðja felist í því að draga sig inn í skelina og loka sig frá lífinu og hin fjórða, að leita út og gerast skoðanalaust ekkert eða samnefnari alls. Ef litið er þannig á málin, þá felast í fyrstu lausninni bæði narcissus, sem ég hefi lýst í síðustu tveim erindum, svo og fyrirmyndin, perfektionistinn, sem er til umfjöllunar í þessu og næsta erindi, svo og hefndarsigur, sem fjallað verður um í næstu erindum þar á eftir.
Þegar maðurinn breiðir úr sér og leitar yfirburða, samjafnar hann sig við hið mikilfenglega sjálf. Hann er hinn ágæti eða framúrskarandi. Hvort sem það er meðvitað eða dulvitað, ákvarðar viðhorfið alla hegðun manns og viðleitni í lífinu. Meginmarkmiðið er að ná tökum á lífinu, komast yfir hindranir hið ytra eða hið innra og telja sér trú um að það sé mögulegt. Ráða þarf við alla erfiðleika lífs og örlaga, fyrirstöðu annarra og eigin vandamál. Stöðugur ótti er við minnimáttarkennd eða hjálparleysi.
Þegar betur er að gáð, sjáum við að fólk af þessum toga virðist hafa tilhneigingu til að gylla eigin mynd og það er metnaðargjarnt og hefnigjarnt. Það ætlar að ná tökum á lífinu og upphefja sig með gáfum sínum og vilja. Hið gagnstæða er fyrirlitið og bælt. Myndin af þessu fólki er því einhæf, sú einhliða mynd, sem það lætur sem það sé í raun, til að skapa innri tilfinningu fyrir einingu. Þörfin fyrir að lifa í markmiðum yfirburða og útþenslu er að hluta komin til vegna þarfar til að ýta úr vitundinni öllum tilhneigingum til veikleika, sjálfsásökunar, efasemdar eða sjálfsfyrirlitningar. Aðeins með þeim hætti má sannfæra sig um yfirburði sína, snilli og stjórnsemi.
Ákveðin hætta fylgir því, ef þetta fólk uppgötvar, að skyldur, sem það hefur sett sér, eru að einhverju leyti ekki uppfylltar. Það leiðir til sektarkenndar eða minnimáttarkenndar. Þar sem enginn uppfyllir skyldur sínar, er óhjákvæmilegt fyrir þetta fólk að nota öll ráð til að afneita hvers konar mistökum gagnvart sjálfu sér. Með hjálp ímyndunaraflsins, með því að fegra "góða" eiginleika, þurrka út aðra, með því að hegða sér fullkomlega rétt, með frávörpun, er varðveitt mynd í eigin huga, sem hægt er að vera stoltur af. Menn koma sér upp óafvitaðri sýndarmennsku, þykjast vita allt, vera sanngjarnir, réttlátir o.s.frv. Aldrei má undir neinum kringumstæðum uppgötva, að hið upphafna sjálf stendur á vafasömum grunni.
Gagnvart öðrum ríkja tvenns konar tilfinningar. Meðvitað eða ómeðvitað getur viðkomandi verið stoltur af því, hvernig honum tekst að blekkja aðra og í hroka sínum og fyrirlitningu á öðrum trúir hann að það takist í raun. Þess vegna er hann sjálfur hræddur um að verða blekktur og gerist það, finnst honum það mikil lítillækkun. Viðkomandi getur einnig lifað í stöðugum en óljósum ótta um að vera sýndarmenni, þ.e. meira en aðrir. Jafnvel þótt hann hafi náð árangri vegna ærlegrar vinnu, hefur hann samt tilfinningu fyrir að hafa náð árangrinum með því að notfæra sér aðra. Hann verður mjög viðkvæmur fyrir gagnrýni eða mistökum, sérstaklega óttast hann hugsanlega gagnrýni á eigin mistök eða sýndarmennsku.
Í hópi þeim, sem leitar yfirburða og útþenslu og hér hefur aðeins verið drepið á, eru margar manngerðir. Þetta má sjá með því að virða fyrir sér vini og kunningja eða lesa skáldverk. Ég hefi áður lýst einni manngerðinni, narcissus, sem samjafnar sig við sína eigin mynd og dáist að henni. Manngerðin, sem er hér til umræðu, fyrirmyndin, perfektionistinn, samjafnar sig við sínar skyldur og staðla, einkum gáfna-, skynsemi- og siðferðisstaðla. Þriðja manngerðin, sem lýst verður síðar, samsamar sig eigin stolti. Hér er mjög svo ólíkar manngerðir að finna og sálrænar lausnir þeirra í grundvallaratriðum ólíkar. Narissus byggir á því myndræna, ímyndunaraflinu. Hann hefur innsýn inn í lífið í kringum sig og er yfirleitt skapléttur. Fyrirmyndin byggir á skynsemi og rökhugsun og er alvarlegri og ófrjórri. Skal nú vikið nánar að þeirri manngerð.
19.2 SUPEREGÓ.
Það fer ekki fram hjá neinum, að vissar manngerðir tileinka sér mjög stranga siðferðilega staðla. Þeir, sem eru af þeim manngerðum, virðast ekki beinlínis sækjast eftir hamingju, en eru haldnir þeirri áráttu að gera allt rétt og af nákvæmni. Orðin "skal" og "verða" stjórna þeim. Þeir verða að gera verk sitt fullkomlega, vera fjölhæfir, sýna hæfni á mörgum sviðum, hafa rétta dómgreind, vera fyrirmyndar maki, ættarsómi, góður gestgjafi o.s.frv. Siðferðilegum markmiðum þeirra eru engin takmörk sett. Óviðráðanlegar kringumstæður teljast ekki til afsökunar. Þeir ættu aldrei að særast eða gera mistök. Þeir ásaka sjálfan sig fyrir að geta ekki uppfyllt staðlana og einnig vegna mistaka í fortíðinni. Þótt þeir hafi alist upp við erfiðar aðstæður, telja þeir að það hefði ekki átt að hafa áhrif á þá. Þeir eigi að vera nægilega sterkir til að þola illa meðferð, án ótta, undirlægjuháttar eða reiði.
Það sem einkennir þessar kröfur eða staðla er að þá þarf algerlega að uppfylla hverjar sem kringumstæður eru. Hvort viðkomanda líkar staðlarnir eða hann hefur trú á gildi þeirra, er látið lönd og leið, en hitt hvort hann getur uppfyllt þá undantekningarlaust skiptir öllu máli. Staðlarnir eru til og verða ekki þurrkaðir út. Þeim ber að hlýða skilyrðislaust. Minnstu frávik er nauðsynlegt að réttlæta rækilega fyrir sjálfum sér ella fylgir því sektarkennd eða kvíði. Fólk verður misjafnlega vart við þessar tilhneigingar. Sumir telja sig vera svona að eðlifari, þ.e. að eigin áliti góða, samviskusama og skynsama.
Hvort markmið er meðvitað eða ekki, það er ekki eins áríðandi og oft er talið. Viðkomandi getur haft vitneskju um eigin metnað, en litla um það, hve metnaðurinn hefur náð sterkum tökum á honum eða spillir lífi hans. Við finnum fyrir kvíða af og til, en við vitum lítið um það, hve líf okkar stjórnast í einu og öllu af þeim sama kvíða. Þess vegna skiptir í sjálfu sér litlu að vera meðvitaður um að hafa þörf fyrir siðferðilega fullkomnun. Raunverulega er auðvelt að komast að því. Það sem gildir er að átta sig á því, hversu mikil áráttan er og hvers eðlis hún er. Hve rík eru áhrif hennar í samskiptum okkar við aðra og á okkur sjálf. Sérstaklega er mikilvægt að finna ástæður þess, að nauðsynlegt virðist að halda í þessa ströngu staðla. En það kostar nokkra vinnu við sjálfan sig og þar hefst baráttan við alls konar ómeðvitaða þætti.
Ósveigjanlegt hegðunarmynstur bendir til slíkra staðla. Sá sem þarf að gera allt fyrir alla, en getur ekkert gert fyrir sjálfan sig, sá sem fær sektarkennd um leið og frávik eru gerð frá innbyggðum stöðlum og sá sem finnst aðrir vera að ásaka sig eða gera óhóflegar kröfur til sín, hefur ástæðu til að telja sig vera undir ægivaldi "superegósins", eins og Freud nefndi það. Munurinn á þessum manni og þeirri fyrirmynd, sem við ræðum í þessum þætti er sá, að fyrirmyndin samsamar sig við "superegóið" og treður stöðlunum upp á aðra. Hinum skyldurækna með sektarkenndina finnst hann hins vegar aldrei uppfylla staðlana nægilega. Hann þjáist undir þeim, en nær aldrei að slá því föstu, eins og fyrirmyndin eða perfektionistinn, að hann sé óskeikull, staðlarnir séu hann.
Margir eru vafalaust að meira eða minna leyti undir ægivaldi fullkomnunaráráttu og þjást undan þeim kröfum og takmörkunum, sem hún setur. En fullkomnunarárátta er gjarnan óeinlæg. Hún er oftast nokkuð gruggug eða vafasöm, ef svo má segja. Eftirsókn og leit eftir siðferðilegum markmiðum verður oft formið eitt, yfirborðsleg og hræsnisgjörn. Hætt er við að hegðun verði aðalmarkmiðið og eins konar yfirskyn kosta og dyggða. Þetta minnir á orð Páls postula sem bendir á muninn á uppfyllingu lögmálsins að formi til eða heilshugar frá hjartanu. Um það segir í 1. Kórintubréfi 13, 1 3: "Þótt ég talaði tungum manna og engla, en hefði ekki kærleika, yrði ég hljómandi málmur og hvellandi bjalla. Og þótt ég hefði spádómsgáfu og vissi alla leyndardóma og ætti alla þekking og þótt ég hefði svo takmarkalausa trú, að færa mætti fjöll úr stað, en hefði ekki kærleika, væri ég ekki neitt. Og þó ég deildi út öllum eigum mínum, og þótt ég framseldi líkama minn, til þess að ég yrði brenndur, en hefði ekki kærleika, væri ég engu bættari."
Þegar sá sem stefnir ákveðið að því að öðlast eitthvað, veitir því athygli að innra með honum búa hindranir, reynir hann að hyggja að rótum þeirra til þess að sigrast á vandanum. Sá sem kemur auga á það, að hann er stundum skapstyggur af litlu tilefni, reynir venjulega að hafa taumhald á skapi sínu við slíkar aðstæður. Ef það nægir ekki, leitar hann að þeim þáttum í persónuleikanum, sem valda þessu og breytir þeim, ef mögulegt er. Flestir fara ekki þannig að, heldur reyna að gera lítið úr skapbrestunum eða réttlæta þá. Takist það ekki, skamma þeir sjálfa sig miskunnarlaust. Síðan er ekki meira gert í málinu. Það hvarflar ekki að þeim, að eitthvað í þeim sjálfum sé ekki eins og það á að vera og orsaki skapstyggðina. Af því leiðir, að ekkert breytist og þessi leikur er endurtekinn í það óendanlega. Ef við skoðum málið, sjáum við tilgangsleysi slíkra gerða. En þrátt fyrir að vita að skapstyggðin sé aðeins loftbólur, sem streyma upp á yfirborðið, hættir okkur til að verða viðkvæm eða kvíðin, þegar við ætlum að kafa dýpra.
Manngerðin sem um er rætt í þessum þætti, er afar fráhverf því að takast af alvöru á við eigin viðhorf. Það má segja, að hún sækist í raun ekki eftir aukinni fullkomnun, heldur að hafa yfirbragð og útlit fullkomnunar, sýnast fullkomin. Sýnast í augum hverra? Fyrst skyldi maður ætla, að viðkomandi vildi vera fullkominn gagnvart sjálfum sér. Hann skammar sig fyrir galla, án tillits til þess hvort aðrir sjái þá. Hann virðist sjálfstæður gagnvart öðru fólki. En í ljós kemur við nánari athugun, að þessir menn eru háðir öðrum á sinn hátt. Hugsanir, tilfinningar og gerðir þeirra ákvarðast af ytra umhverfi, meðal annars því hvers vænst er af þeim, hvort sem viðbrögð þeirra við slíkum væntingum eru í hlýðni eða andstaða og óhlýðni. Skoðanir annarra skipta þá miklu máli. Ósjálfstæði þeirra er mjög sérstætt að því leyti, að mikilvægt er, að aðrir viðurkenni óskeikuleika þeirra. Ef óskeikulleikinn er vefengdur, verður þeim órótt, því þá finnst þeim gefið til kynna, að réttsýni þeirra sé ekki hafin yfir allan vafa. Yfirskyn þeirrar ráðvendni, sem þeir vilja fyrir alla muni sýna, er ekki síður ætlað öðrum en þeim sjálfum. Þeir þurfa að sýnast fullkomnir bæði í eigin augum og annarra.
Einkenni þess að sýnast, koma greinilega í ljós og á þeim ber oft meira þegar fullkomnunaráráttan snýr ekki að siðferðiskröfum, heldur eigingjörnum markmiðum, eins og að þurfa að vita allt, svo sem algengt er meðal gáfnaljósa nútímans. Þegar slíkir menn eru spurðir um það, sem þeir geta ekki svarað, þá látast þeir vita það, jafnvel þótt það að játa þekkingarleysi sitt, varpaði ekki minnsta skugga á gáfnafar þeirra.
Í nútímaþjóðfélagi komumst við varla hjá því, að sýna eitthvert yfirskyn eða að sýnast á einhvern hátt. Við höfum alltént innbyrt staðla þjóðfélagsins og erum að vissu marki háð áliti annarra á okkur. William James talaði um "social self" og Jung um "persona". Það sem gerist hins vegar, þegar um er að ræða þá manngerð sem hér er til umfjöllunar, er að maður verður ásýnd, ef nota má svo ýkta lýsingu. Þá skiptir ekki máli, hvað viðkomandi vill í raun sjálfur, hvað honum líkar, mislíkar o.s.frv. Það sem máli skiptir er að uppfylla væntingar, staðla og skyldur.
Fullkomnunaráráttan getur tekið til alls, sem hefur gildi í menningu okkar. Má þar meðal annars nefna reglusemi, hreinlæti, stundvísi, samviskusemi, dugnað, andlegan og listrænan árangur, skynsemi, örlæti, þolinmæði, óeigingirni. Það er undir ýmsu komið, hvers konar fullkomnun stefnt er að, svo sem hæfni, fólki eða gæðum, sem viðkomandi dáði í æsku, umhverfisörðugleikum í æsku, sem gerðu hann staðráðinn í að gera betur, möguleikum á að skara fram úr, kvíða sem verður að vernda sig gegn og fjölmörgu fleira sem ekki verður upp talið hér.
19.3 ORSAKIR ÁRÁTTUNNAR.
En hvar er orsakanna að leita? Eins og fyrri daginn er þeirra að leita í æsku. Barnið finnur sig í erfiðri aðstöðu. Það hefur verið aðþrengt og þurft að aðlaga sig að væntingum foreldranna. Við það missir það hæfni til eigin frumkvæðis, að hafa eigin óskir, markmið og dómgreind. Firring frá fólki gerir barnið mannfælið. Á fullorðinsárum heldur hið innra barn fortíðarinnar áfram að leitast eftir velþóknun foreldra sinna eða þeirra, er við tóku af þeim. Foreldrarnir voru sparir á viðurkenningu á sínum tíma, en væntu sífellt betri frammistöðu barnsins. Þeir voru sjálfbirgingslegir og höfðu alltaf rétt að mæla og sem yfirvald sveigðu þeir barnið undir sína staðla eða persónulegt einræði. Vegna stöðugra krafna varð barnið að geta meira en það gat með hægu móti. Það bældi niður reiði sína og ásakanir vegna óvissu um að vera foreldrum sínum velþóknanlegt. Ef barni verða á mistök og er skammað óhæfilega, er hætt við að það líti á sjálft sig sem gallagrip, missi sjálfstraust og treysti upp frá því meira á aðra og hið ytra vegna óvissu um sig sjálft.
Af þessum ástæðum glatar barnið eigin þungamiðju, ef svo má að orði komast, og flytur hana út til yfirvaldanna og umhverfisins. Þetta gerðist smám saman og óafvitað. Barnið ákvað, að foreldrar og umhverfi hefðu alltaf rétt að mæla. Mælistika þess, hvað væri gott eða vont, æskilegt eða óæskilegt, ánægjulegt eða leiðinlegt, velþóknanlegt eða vanþóknanlegt, varð utan einstaklingsins og hélst þar. Barnið missti eigin dómgreind. Með þessu móti bjargaði það sér frá vitneskju um að hafa orðið undir. Það gerði hina ytri staðla að sínum eigin og tryggði með því ásýnd sjálfstæðis. Það gæti hafa sagt: "Ég geri allt sem ætlast er til af mér og kaupi mig með því frá öllum skyldum. Þannig öðlast ég rétt til að vera látinn í friði."
Með því að aðhyllast ytri staðla, fær viðkomandi nokkra festu, sem hylur veikleika hans, ekki ósvipað og sjúkrabelti verndar laskaðan hrygg. Staðlarnir segja honum, hvers hann óskar, hvað er rétt og rangt og hann verkar því út á við sem sterkur persónuleiki. Með því að uppfylla staðla eða væntingar, verður hann einnig hafinn yfir skammir og árásir og kemur þannig í veg fyrir árekstra við umhverfið. Þessir þvingandi staðlar stjórna samskiptum hans við aðra og umhverfið.
Að síðustu má benda á það, að með því að fylgja stöðlum, öðlast viðkomandi tilfinningu fyrir yfirburðum. Þetta er svipuð tilfinning og Narcissus hefur og áður hefur verið lýst. Munur er þó sá, að Narcissus nýtur þess að vera dásamlegur og hefur nautn af þeirri aðdáun, sem því fylgir. Þegar um fyrirmyndina er að ræða, situr fjandskapur gagnvart öðrum í fyrirrúmi. Fyrirmyndin krefst ekki aðdáunar, heldur viðurkenningar. Jafnvel sektarkennd, sem svo grunnt er á hjá fyrirmyndinni, er talin dyggð, vegna þess að hún er sönnun þess, hve viðkomandi er næmur fyrir siðferðiskröfum. Ef slíkum manni er bent á, að sjálfsásakanir séu ýktar, þá finnst honum með sjálfum sér, að gagnrýnandinn sé grófari og á lægra plani og skilji hann því ekki.
Þetta viðhorf er óafvitaður fjandskapur, sem sýnir sig meðal annars í að hnýta í aðra eða rífa þá í sig með eigin yfirburðum. Þetta getur komið fram í niðrandi hugsunum um mistök og galla annarra. Tilhneiging er til að segja öðrum hversu heimskir, lítilsvirði og fyrirlitlegir þeir eru og gera þá að engu, tilhneiging til að höggva í aðra með réttmætri vandlætingu úr upphæðum eigin óskeikulleika. Með því að vera "heilagri en þú", öðlast viðkomandi rétt til að líta niður á aðra og særa þá á sama hátt og þeir voru særðir af foreldrunum, eða öðrum, sem tóku við hlutverki foreldranna.
Þörfin fyrir hefndarsigur yfir öðrum á sér margar rætur. Slíkur náungi nýtur mjög takmarkað mannlegra samskipta eða vinnu. Hvoru tveggja verða skyldur, sem hann er mótfallinn innra með sér. Jákvæðar einlægar tilfinningar til annarra fá ekki að myndast og tilefni reiðinnar eru mörg. Honum finnst hann ekki lifa eigin lífi og það ekki að ástæðulausu, þar sem hann verður alltaf að uppfylla væntingar annarra. Hann veit sem sé ekki, að hann hefur framselt öðrum vilja sinn og eigið gildismat og því þjáist hann undir oki skyldna. Sigur yfir öðrum er því eina leiðin, er lýsir sér í að sýna yfirburði í réttsýni, kostum og dyggðum.
Önnur hliðin á hinu þægilega yfirborði er þannig innri uppreisn gegn öllum væntingum. Um leið og eitthvað verk fellur undir væntingar eða viðkomandi býst við að svo muni verða, fær hann andúð á því. Fleiri og fleiri athafnir falla undir þennan flokk væntinga, sem oft leiðir til dáðleysis og aðgerðarleysis. Einstakar athafnir í lífinu og lífið yfirleitt verður leiðigjarnt og óaðlaðandi fyrir þann, sem ekki er frjáls og ekki starfar eftir eigin markmiðum, þ.e. ef tilfinningar og athafnir eru forritaðar fyrirfram.
Jafnvel þótt eitthvert verk hefjist að eigin frumkvæði, verður það fljótlega eins konar skylda, sem vekur andstöðu gegn því. Þannig verður sami einstaklingur ýmist oft mjög athafnasamur eða hefur ekki löngun til að hafast neitt að. Verkið getur einnig orðið mjög mikil raun. Áreynslan verður þeim mun meiri, sem verkið verður umfram hið venjulega, þegar allt verður að vera hárrétt og möguleiki á villu veldur kvíða. Af því leiðir að reynt er að finna afsökun til að losna við verkið eða gera aðra ábyrga fyrir því.
19.4 KVÍÐI PERFEKTIONISTANS.
Þeir, sem sækjast eftir fullkomnun, svo sem hér hefur verið lýst, eru haldnir tvenns konar kvíða. Í fyrsta lagi er um að ræða kvíða um að gera mistök eða sjá galla. Sá kvíði skapast vegna þess mismunar sem er á ásýndinni og veruleika sem að baki liggur. Það er ótti við að vera afhjúpaður og vanþóknun, sem því fylgir. Þessi ótti, þó tengdur sé einhverju ákveðnu í fari mannsins, er í raun hinn óræði ótti við, að dag nokkurn sjái aðrir að hann sé ekki eins örlátur og algóður og hann vill vera láta, heldur sé hann í raun eigingjarn og sjálfhverfur eða hafi ekki áhuga á starfi sínu, heldur eigin vegsemd og frægð. Hann óttast, að aðrir verði fyrir vonbrigðum með hann, að hann hafi ekki þá þekkingu, sem hann vill vera láta, að hann sé ekki jafn klár og afkastamikill í starfi og hann er talinn vera o.s.frv. Þessi ótti veldur vanlíðan og hugarangri og skapar honum tilfinningu fyrir að vera ekki velþóknanlegur eða njóta hylli, sem aftur leiðir til einmanaleika í sálinni. Þá kemur enn til sá hefndarsigur, sem áður hefur verið drepið á. Ef einhver hefur sett sig á háan stall til að horfa niður á takmarkanir og galla annarra, þá geta eigin mistök skapað hættu á að verða sjálfur lítillækkaður, hlægilegur eða undirorpinn fyrirlitningu.
Í öðru lagi er um að ræða kvíða, sem vaknar þegar viðkomandi verður þess var að hann hafi eigin óskir, óskir sem ekki er hægt að réttlæta sem nauðsynlegar fyrir heilsu, menntun, óeigingirni eða annað þess háttar tilheyrandi gæðastöðlum hans sjálfs. Þegar á allt er litið er óttinn ekki einvörðungu vegna þess að viðkomandi telji hættu á að séð verði í gegn um hann, heldur er öryggi hans svo róttengt eigin stöðlum hans og reglum, að hann getur ekki lifað án þeirra. Hann veit ekki hvernig hann á að athafna sig án þeirra. Ef hann er hann sjálfur, verður hin fullkomna ásýnd hans í hættu. Við höldum gjarnan, að það sé mjög æskilegt að vera við sjálf og vissulega er það ómetanlegt. En ef lífsöryggið byggist á því vera það ekki, þá er uggvænlegt að uppgötva, að á bak við ásýndina búi mannleg vera. Það er ekki kleift að vera í senn leikbrúða og lifandi mannleg vera. Þegar komist er yfir þann kvíða, sem stafar af þessari tvöfeldni, þá fyrst finnst það öryggi, sem er fólgið í því að öðlast aftur sína eigin andlegu þungamiðju.
19.5 PERFEKTIONISTINN.
Eins og sagt hefur verið, samsamar perfektionistinn sig eigin stöðlum sínum. Hann telur sig hafa yfirburði yfir aðra vegna hinna háu siðferðilegu staðla og skynsemi, sem hann býr yfir og frá því sjónarhorni lítur hann niður á aðra. Hrokafull fyrirlitning hans á öðrum er þó dulin honum sem öðrum, á bak við fáguð vinsamlegheit, enda meina staðlarnir honum miklar eða hæpnar tilfinningar.
Að því er tekur til þess að rækja skyldurnar, þá blekkir hann sig á ýmsan hátt. Gagnstætt narcissus, reynir hann allt til að uppfylla skyldur og skuldbindingar af kurteisi og skynsemi, meðal annars með því að ljúga ekki svo augljóst sé. Þegar talað er um perfektionista, er oft átt við þá sem hafa allt í röð og reglu, eru hárnákvæmir, vandvirkir, smámunasamir og stundvísir, segja rétta hluti þegar við á og gæta þess að hálsbindi og húfa séu sem vera ber. En þetta er aðeins yfirborðsásýnd á þörf þeirra til að skara framúr að gæðum. Smámunirnir skipta þá í raun ekki máli, heldur það að öðlast gallalausan yfirburðalífstíl. En þar sem hegðunarfullkomnun er það eina sem ávinnst við þetta er enn önnur blekkingaraðferð nauðsynleg. Í eigin huga greinir hann ekki á milli staðla og staðreynda, á milli þess að vita um siðferðilega staðla og hins vegar vera góður maður. Þessi sjálfsblekking dylst honum, einkum og sér í lagi vegna þess að hann heimtar og hefur væntingar um, að aðrir uppfylli hans eigin fullkomnunarstaðla. Og hann fyrirlítur þá, sem ekki tekst að gera það. Þannig flytur hann eigin sjálfsásakanir yfir á aðra.
Hann þarfnast virðingar annarra til þess að fá staðfestingu á eigin skoðun á sjálfum sér. Aðdáunar þarf hann síður við en virðingar og hefur frekar andstyggð á henni. Aðdáunarþörfin er á hinn bóginn auðkenni narcissus. Kröfur perfektionistans á umhverfið og aðra eru öðru vísi grunnaðar en hjá narcissus, sem byggir kröfur sínar á mikilleik sínum. Kröfur hins fyrrnefnda byggjast á eins konar samningi, sem hann hefur gert við lífið. Því er lýst í II. þætti um kröfuna, meðal annars með þessum orðum: Réttlætið getur stundum gengið nokkuð langt. Til dæmis þegar sagt er: "Af því að ég hefi alltaf verið góður og gegn borgari, þá á ekkert mótdrægt eða fjandsamlegt að henda mig." Sumir halda jafnan, að dyggð fylgi umbun eða laun, þótt þeir rekist sífellt á það sem sannar hið gagnstæða. Krafan um að hinum dyggðugu sé jafnan umbunað, er gerð að nokkurs konar "heimspekistefnu". Sjá nánar II. þátt um kröfuna.
Af því að perfektionistinn sjálfur er heiðarlegur, réttlátur, skyldurækinn, telur hann sig eiga rétt á sanngjarnri framkomu annarra og að lífið leiki við hann. Þessi sannfæring um að óskeikult réttlæti ríki í þessu lífi, veitir honum tilfinningu yfirburða. Fullkomleiki hans er þannig ekki aðeins tæki til yfirburða, heldur einnig tæki til að ná tökum á lífinu. Óverðskulduð örlög eða gengi, gott eða illt, er honum framandi. Árangur hans og velgengni eða góð heilsa er þess vegna frekar sönnun um verðleika hans, en eitthvað sem fellur manni í skaut eingöngu til að njóta. Því er það að ógæfa, sem hendir hann, svo sem slys, missir barns, ótrúmennska maka, eða missir atvinnu, getur orðið til þess, að hann, sem virðist í jafnvægi, falli næstum saman. Honum gremjast slæm örlög og hann telur þau óréttlát. En umfram allt skekkja þau sálrænan grundvöll hans. Þau ógilda bókhaldskerfi hans og vekja upp hinn hræðilega grun um eigið hjálparleysi.
Með því að telja metnð vera dyggð, yfirsést okkur að staðlarnir koma utan frá. Þeim er ofaukið. Þrátt fyrir góðan árangur perfektionistans, finnst honum jafnan að hann hafi ekki náð nógu góðum árangri. Perfektionistinn verður að halda áfram að leggja sig allan fram til að þurfa ekki að horfast í augu við eigin viðhorf um, að hann hefði getað gert betur. Því mætti spyrja: Er það þörfin fyrir að ná valdi yfir umhverfinu, sem er driffjöður perfektionistans eða er það árátta hans undir niðri, um að gera lítið úr eigin getu, sem veldur hinni þrotlausu viðleitni hans til að gera betur? Er einhver munur á siðferði perfektionistans og öðru siðferði? Um þetta meðal annars verður fjallað í næsta þætti.