Aukafærsla 2



Í Jóhannesarguðspjalli 8. kafla 32. versi eru þessi orð höfð eftir Jesú: "sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa". Það er gamall vísdómur, að sannleikurinn frelsar og læknar. Búdda lagði á þetta áherslu og Sókrates einnig. Sálfræðingurinn alþekkti, Sigmund Freud, byggði á þessari lífsreglu og sállækningar nútímans eru grundvallaðar á henni. Nefni ég þetta sem dæmi af fjölmörgum.

Þegar mannlegt eðli og siðferði eru tekin til íhugunar, verða viðhorfin með ýmsu móti og trúin verður misjöfn á mannlegt eðli. Mig langar til að víkja örlítið að þremur meginviðhorfum til þessa, sem ríkt hafa til skiptis á ýmsum tímum.

Í fyrsta lagi hefur ríkt sú skoðun, að maðurinn sé í eðli sínu syndugur og haldinn frumstæðum hvötum. Markmið allrar siðferðisviðleitni er því að temja, ná tökum á og sigrast á eðli sínu, en ekki að þroska það eða þróa.

Í öðru lagi hafa ýmsir haldið því fram, að mannleg náttúra sé samsett af góðum og illum öflum. Markmiðið er þá, að hin góðu öfl sigri hin illu. Hið syndsamlega og skaðlega er yfirunnið af hinu góða með ýmsu hjálpræði, svo sem trú og skynsemi, viljastyrk eða náð. Fer það eftir siðferðilegri eða trúarlegri viðmiðun á hverjum tíma. Ekki er aðeins verið að berjast við hið illa og kveða það niður, heldur er um að ræða jákvæða framvinduáætlun, oft með hjálp yfirnáttúrulegra afla.

Í þriðja lagi horfir siðferðisvandamálið og mannlegur þroski öðru vísi við, ef því er trúað, að í manninum búi öfl, sem stuðli að jákvæðri uppbyggingu og þróun hans og hvetji hann til raunsæis, að manninum sé ásköpuð hvöt til gera sér ljósan veruleikann, eigin getu og möguleika. Þá er ekki spurt, hvað sé gott eða illt, því slíkt verður ekki skilgreint eða þekkt, heldur þroskast maðurinn samkvæmt sínu eigin eðli og að eigin frumkvæði. Þá er ekki um að ræða fyrirfram ákveðin innri boð og bönn, hemla eða hömlur. Samkvæmt þessari skoðun ber maðurinn fulla ábyrgð á gerðum sínum gagnvart sjálfum sér. Hvað við ræktum eða hverju við höfnum í sjálfum okkur ræðst af því, hvort það hvetur til mannlegs þroska eða hindrar hann.

Sjálfsþroski er nátengdur hinni alþekktu spurningu: "Hver er ég?" Sú saga er sögð, að heimspekingurinn Arthur Schopenhauer hafi einhverju sinni reikað um í hugleiðslu í skrúðgarði nokkrum. Hann hafði gengið inn í blómabeð og stóð þar í algeymi, þegar eigandi garðsins hrópaði til hans: "Hver heldurðu eiginlega að þú sért?" "Það er nú svo, ef ég aðeins vissi það", svaraði Schopenhauer.

Öll verðum við sjálf að leysa okkar eigin fjötra. Aðrir gera það ekki fyrir okkur. Þegar við skiljum innhaldsleysi viðhorfanna, sem við erum fjörtuð í, og þegar við sjáum að þau eru einungis hugarburður en ekki veruleiki, þá tekst okkur smám saman að nálgast sjálf okkur og þann guð, sem í okkur býr. - Þegar við sjáum, að markmiðin sem við setjum okkur eru huglæg og að hugmyndirnar sem við sköpum okkur eru tilbúningur, þá komumst við nær raunveruleikanum. Það dylst engum, sem leitar þess sannleika, er gerir okkur frjáls, að mesta hindrunin er egoið í sínum margvíslegu myndum.

Forsenda frelsis er að vakna frá blekkingunni. Lausn frá bekkingunni í margbreytilegum myndum og að sjá sannleikann eða raunveruleikann, er hin rétta þroskabraut mannsins. Þegar talað er um blekkingu er ekki aðeins átt við það sem við trúum og hugsum meðvitað, heldur hið dulvitaða sem við bælum vegna þess að við viljum ekki vita af því eða hugsa um það. Sannleikurinn er skilyrði lausnar. Sá sem er fjötraður af áráttu og löngunum, hefur jafnan óljósar hugmyndir um sjálfan sig og heiminn. Hann lifir í blekkingu.

Ef við trúum því að innra með okkur búi öfl er stefni sjálfkrafa til raunsæis og sjálfsþekkingar, þörfnumst við engrar innri spennitreyju boða og banna, sem fjötrar okkur eða þvingar til fullkomnunar. Slíkar aðferðir verða óþarfar. Með varurð og skilningi á sjálfum okkur getum við upprætt hinar neikvæðu tilhneigingar. Sjálfsþekking leysir úr læðingi þau öfl sem stuðla að sjálfsþroska okkar. Sjálfsþekking er ekki aðeins siðferðileg skylda, heldur eftirsóknarverð forréttindi. Því meir sem við losnum við eigingirni okkar, þeim mun frjálsari verðum við. Einnig verður auðveldara fyrir okkur að skilja aðra, létta byrðar þeirra og hjálpa þeim til að finna sjálfa sig. Markmiðið verður að leysa úr læðingi og þroska þau öfl, sem leiða til innsæis og raunsæis.

Margir trúarleiðtogar hafa sagt, að ódauðleg sálin sé sú sama í hinum æðsta guði og venjulegum manni. Aðeins stigsmunur sé á birtingu hennar. Merkur Sufi sagði: "Gakktu eitt skref út úr sjálfum þér og þú kemur til guðs." Sérhver maður, sem fer að þekkja sjálfan sig tilvistarlausan, kynnist guði sem tilvist. Þetta er sannleikurinn, sem gerir okkur frjáls. Minnumst þess að lokum: "Engin trúarbrögð eru sannleikanum æðri."